
Við hjá Krafti kveðjum árið með þakklæti í hjarta. Árið sem er að líða var að venju viðburðaríkt og Kraftmikið en líka litað af miklum breytingum.
Við héldum áfram að veita stuðning við ungt fólk og aðstandendur þeirra, með áherslu á jafningjastuðning, ráðgjöf, fræðslu og hagsmunagæslu. Stuðningshópar á borð við StelpuKraft, StrákaKraft, AðstandendaKraft og FjölskylduKraft héldu takti og stóru viðburðirnir okkar uxu enn frekar.
Við kvöddum góðan hóp starfsfólks og tókum á móti nýjum andlitum. Á líðandi ári fór fram tiltekt á félagatali Krafts með þeim tilgangi að bæta þjónustu við virka félaga. Þjónusta og samskipti við félaga var færð á Abler sem eykur til að mynda á aðgengi að viðburðadagatali Krafts.
Fræðsla og vitundarvakning var í hæstu hæðum sem byrjaði af Krafti í jan með herferðinni ,,Ég á lítinn skrítinn skugga”. Herferðin vakti mikla athygli og skilaði okkur og almenningi dýrmætum niðurstöðum. Kraftur hóf samstarf við lögfræðistofuna Lögvísi til þess að auka aðang félagsmanna að lögfræðiaðstoð. Farið var af stað með ,,Kraftsmunavakt” á helstu miðlum þar sem við miðlum og fræðum félagsfólk og almenning um hagsmuni fólks í tengslum við krabbamein.
Viðburða- og fjáröflunarstarf var jafnframt umfangsmikið og skilaði mikilvægum tekjum til félagsins, meðal annars í tengslum við Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka.
Við þökkum öllum sem studdu Kraft á árinu — félagsfólki, starfsfólki, sjálfboðaliðum, samstarfsaðilum og velunnurum og óskum ykkur gleðilegs nýs árs.