Sýnum Kraft í verki – vitundarvakning Krafts fer vel af stað

By 26. janúar 2026Fréttir

Sýnum Kraft í verki, kaupum armbandið og berum það með stolti, stuðningurinn skiptir máli. 

Perlað af Krafti er eitt stærsta samfélagslega verkefni landsins. Það er mikilvægt að halda merkjum félagsins á lofti og á sama tíma er þetta ein helsta fjáröflun félagsins. Armbandið segir meira en þúsund orð. Það sýnir samstöðu í verki að bæði perla og bera armbandið og er vettvangur fyrir öll að taka þátt.

Um 90 ungir einstaklingar á aldrinum 18-40 ára greinast á ári hverju og hefur það bæði áhrif á þau greindu sem og fjölskyldu og ástvini þeirra. Kraftur styður við bakið á þeim með þinni hjálp.

Á næstu dögum munuð þið eflaust taka eftir þeim Loga, Söru, Sigrúnu og Sólveigu sem öll eiga það sameiginlegt að hafa greinst með krabbamein eða átt nákominn aðstandanda sem hefur fengið þetta stóra verkefni að greinast. Þau þekkja af eigin raun hversu miklu máli það skiptir að sjá fólk bera armbandið úti í samfélaginu og finna samstöðuna og kærleikann sem það táknar.

„Þetta armband er lítið tákn sem hefur samt stóra merkingu um gleði og jákvæðni. Þrátt fyrir mótlæti að þá er armbandið ákall um að bara halda áfram. Einn dag í einu, eitt skref í einu og aldrei gefast upp”. 

– Logi, einn sjálfboðaliða vitundarvakningarinnar í ár.

Nú þegar hafa tæplega 7 þúsund armbönd verið perluð með góðri aðstoð frá sjálfboðaliðum um allt land. Við erum fyrirtækjum, stofnunum og sjálfboðaliðum sem nú þegar hafa lagt hönd á plóg óendanlega þakklát en ballið er rétt að byrja. Sunnudaginn 25. janúar perluðustu ríflega 2000 armbönd í Hörpu frá kl. 13:00-17:00. Norðlendingar ætla síðan að koma saman laugardaginn 31. janúar og perla saman af krafti á Akureyri.

Við bendum ykkur á lendingarsíðu vitundarvakningarinnar www.lifidernuna.is fyrir sögur, armbandið og fleira.