Miðstöð síðbúinna afleiðinga er fyrir einstaklinga sem fengu krabbamein sem börn eða unglingar og eru lausir við sjúkdóminn. Almennt verður boðið upp á reglubundna eftirfylgd upp að 25 ára aldri, hversu oft fer eftir eðli sjúkdóms. Einstaklingum eldri en 25 ára sem fengu meðferð 1981 eða síðar verður boðið að koma í a.m.k. eitt viðtal.
Miðstöðin verður hluti af krabbameinsteymi Barnaspítalans og var Vigdís Hrönn Viggósdóttir hjúkrunarfræðingur ráðin verkefnastjóri yfir þróun miðstöðvarinnar. Trausti Óskarsson, barnalæknir í sérnámi í krabbameinslækningum barna á Karólinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi, hefur einnig verið í hlutastarfi við undirbúninginn.
Barnaspítali Hringsins er Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna þakklátur fyrir þann mikla stuðning sem félagið leggur í verkefnið. Hann væntir þess að ný miðstöð síðbúinna afleiðinga komi ekki einungis til móts við heilsutengdar þarfir fólks eftir krabbameinsmeðferð í æsku með beinum stuðningi til þess heldur einnig með auknum stuðningi til heilbrigðisfagfólks sem þjónar því utan spítalans.