Skip to main content

Miðstöð um síðbúnar afleiðingar krabbameina hjá börnum og unglingum loksins að veruleika

By 1. maí 2016mars 25th, 2024Fréttir

Miðstöð síðbúinna afleiðinga er fyrir einstaklinga sem fengu krabbamein sem börn eða unglingar og eru lausir við sjúkdóminn. Almennt verður boðið upp á reglubundna eftirfylgd upp að 25 ára aldri, hversu oft fer eftir eðli sjúkdóms. Einstaklingum eldri en 25 ára sem fengu meðferð 1981 eða síðar verður boðið að koma í a.m.k. eitt viðtal.

Miðstöðin verður hluti af krabbameinsteymi Barnaspítalans og var Vigdís Hrönn Viggósdóttir hjúkrunarfræðingur ráðin verkefnastjóri yfir þróun miðstöðvarinnar. Trausti Óskarsson, barnalæknir í sérnámi í krabbameinslækningum barna á Karólinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi, hefur einnig verið í hlutastarfi við undirbúninginn.

Barnaspítali Hringsins er Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna þakklátur fyrir þann mikla stuðning sem félagið leggur í verkefnið.  Hann væntir þess að ný miðstöð síðbúinna afleiðinga komi ekki einungis til móts við heilsutengdar þarfir fólks eftir krabbameinsmeðferð í æsku með beinum stuðningi til þess heldur einnig með auknum stuðningi til heilbrigðisfagfólks sem þjónar því utan spítalans.