Skip to main content

Kraftur fagnar 25 ára afmæli

By 1. október 2024október 2nd, 2024Fréttir

Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, var formlega stofnað þann 1. október 1999 og fagnar því nú 25 ára afmæli. Persónuleg reynsla nokkurra ungra eldhuga sem höfðu greinst með krabbamein eða voru aðstandendur varð til þess að félagið var stofnað. Þessa persónulegu reynslu ákvað hópurinn að nýta til góðs fyrir aðra sem síðar myndu greinast.

„Það er afstæð staðreynd að fyrir 25 árum síðan var ekki til stuðningsnet fyrir unga sem greinast með krabbamein og aðstandendur. Að heyja baráttu við krabbamein reynir á alla. Jafningjastuðningur sem við getum veitt hvert öðru í þessari baráttu gefur okkur þann kraft sem þarf til að lifa með eða komast í gegnum veikindi okkar“, segir Viktoría Jensdóttir, formaður Krafts

Um helgina fögnuðu félagsmenn Krafts afmælinu á „Lífið er núna festivalinu“ sem var haldið hátíðlegt laugardaginn 28. september með pompi og prakt. Festivalið er einstakur vettvangur fyrir félagsmenn til að hitta jafningja, læra nýja hluti, fræðast, skemmta sér með öðrum og skapa frábærar minningar. Festivalið er haldið til að minna á að njóta líðandi stundar þar sem veikindi geta verið mjög krefjandi tími fyrir alla og var yfirskrift viðburðarins „Lífið er núna“. Viðburðurinn er haldinn annað hvert ár og er stærsti viðburður sem Kraftur heldur fyrir félagsmenn sína. Í ár var viðburðurinn extra glæsilegur í tilefni af 25 ára afmæli Krafts.

“Þegar maður er ungur og greinist með krabbamein þá skiptir svo miklu máli að maður upplifi sig ekki einan í þessari baráttu, þá er gott að hitta jafningja sem skilja hvað maður er að ganga í gegnum”, segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts

Dagurinn byrjaði með fjölbreyttum vinnustofum fyrir félagsmenn og var ekki að sjá annað en að allir hefðu fundið eitthvað við sitt hæfi. Vinnustofurnar gefa félagsmönnum tækifæri á að bæta við þekkingu sína og kunnáttu, auk þess var boðið upp á slökun, yoga og spa. Á meðal fyrirlesara og leiðbeinenda má t.d. nefna Harald Inga Þorleifsson, athafnamann, Þorstein Guðmundsson, leikara, Helgu Möggu, næringarþjálfa, Andra hjá Andri Iceland og Snædísi Ögn Flosadóttur, forstöðumann hjá Arion Banka. Dagskrá í heild sinni og yfirlit yfir allar vinnustofur má finna hér.

Um 90 manns voru skráðir á daginn en gleðin náði hámarki á VOX Club um kvöldið þegar félagsmenn komu saman og fögnuðu lífinu og 25 ára afmæli félagsins. Veislustýra kvöldsins var gleðisprengjan Sigga Eyrún, söng og leikkona. Magnús Kjartan úr Stuðlabandinu kíkti til okkar með gítarinn og tryllti Magga Maack alla á dansgólfinu frameftir kvöldi.

Kraftur stuðningsfélag er alfarið rekið fyrir velvild almennings og fyrirtækja í landinu. Það er vegna þessara aðila að Kraftur hefur getað verið til staðar fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur í 25 ár. Við erum þeim öllum ævinlega þakklát og sendum okkar innilegustu þakkir til allra sem hafa hjálpað okkur að hjálpa öðrum í gegnum árin. 

Mjög margir komu einnig að Festivalinu okkar og aðstoðuðu okkur hjá Krafti við að gera þennan glæsilega dag að veruleika. Við gætum ekki haldið viðburð sem þennan fyrir félagsmenn okkar nema með aðstoð góðra aðila. Við sendum okkar innilegustu þakkir til allra fyrirtækja og einstaklinga sem styrktu okkur. Að lokum viljum við þakka félagsmönnum okkar fyrir að taka þátt í deginum með okkur og gera daginn og kvöldið ógleymanlegt.

Við þökkum sérstaklega öllum fyrirlesurum, leiðbeinendum og listamönnum, starfsfólki og stjórn Krafts, auk þess sem eftirtaldir aðilar fá sérstakar þakkir:

A4

Akkúrat

Apótek restaurant

Atlantsolía

Baggalútur

Eva Björk, ljósmyndari

Eventum

Fjallkonan

FlyOver Iceland

Grænn Markaður

Hilton Reykjavík Nordica

Hilton Reykjavík Spa

Höldur

Icelandair

Instamyndir

Joe & the Juice

Jómfrúin

Lebowski Bar

Reykjavík Letterpress

Litróf

Merking

Nordurflug Helicopter Tours

Sonik

Tilefni

Tres Logos

Hér að neðan má sjá skemmtilegar myndir frá deginum og kvöldinu

Ljósmyndari: Eva Björk Ægisdóttir