Skip to main content

Haustið er komið!

By 10. september 2024Fréttir

Haustið kemur nú af fullum krafti með stútfulla dagskrá fyrir félagsmenn okkar! Hópastarfið er að fara á fullt hjá okkur og er margt skemmtilegt framundan í vetur. Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur dagskrána á vefnum okkar og á Facebook-hópunum en hér að neðan má lesa um það helsta sem er framundan hjá okkur í vetur.

Hópastarfið

Þann 11. september fer StelpuKraftur af stað þegar stúlkurnar hittast á Finnson Bistro en hópurinn mun hittast annað hvert miðvikudagskvöld í vetur. StrákaKraftur hefst 18. september á Brewdog og fer á sýningu með Improv Ísland í Þjóðleikhúskjallaranum. Hópurinn mun hittast í framhaldi einu sinni í mánuði á miðvikudagskvöldum. Fyrsti viðburður hjá AðstandendaKrafti verður 19. september þegar Heiða Brynja sálfræðingur mun fjalla um samkennd í eigin garð og veita aðstandendum innsýn inn í aðferðir sem geta hjálpað til við að takast á við breyttar aðstæður. Hópurinn mun hittast einu sinni í mánuði á fimmtudagskvöldum í húsnæði Krafts í Skógarhlíð 8.

Kraftur fer norður

Kraftur í samstarfi við Krabbameinsfélagið á Akureyri og nágrennis mun halda viðburði í vetur fyrir félagsmenn á norðurlandi. Fyrsti viðburður, Bjargráð í veikindum, verður haldinn 12. september.

Kraftur heldur reglulega stuðningsfulltrúanámskeið fyrir reynslubolta sem geta nýtt reynslu sína öðrum til góða. Næsta stuðningsfulltrúanámskeið fyrir verðandi stuðningsfulltrúa verður haldið á Akureyri laugardaginn 14. september frá kl.10-17.

Fyrstu skrefin í ræktina

Námskeiðið “Fyrstu skrefin í ræktina” er 8 vikna námskeið sem hefst 17. september og hentar öllum. Áhersla er lögð á vöðvauppbyggingu, þol og líkamsbeitingu. Námskeiðið er í formi hópeinkaþjálfunar í tækjasal. Atli Már Sveinsson íþróttafræðingur sér um námskeiðið en hann hefur sérhæft sig í endurhæfingu fyrir krabbameinsgreinda.

Félagskort Krafts

Allir sem hafa greitt félagsgjöld í Krafti geta fengið félagskort Krafts sem veitir frábæra afslætti hjá flottum samstarfsaðilum. Við höfum sent öllum tölvupóst með félagskortinu sínu. Ef þú hefur ekki fengið tölvupóst sendu þá endilega fyrirspurn til okkar á kraftur@kraftur.org

Hér er hægt að skoða öll tilboðin