Lífið er núna festivalið verður haldið hátíðlega 10. september næstkomandi á Hótel Hilton. Þetta er árshátíð fyrir félagsmenn okkar þar sem við komum saman og fögnum lífinu. Sannkölluð veisla þar sem við verðum með vinnustofur um daginn og þrusu partý um kvöldið.
Við héldum festivalið síðast árið 2019 sem heppnaðist stórkostlega og því ætlum við að endurtaka leikinn.
Af hverju ættir þú að mæta?
Lífið er núna Festivalið er einstakur vettvangur til að hitta jafningja, læra nýja hluti, fræðast, skemmta sér með öðrum og skapa frábærar minningar.
Hvað þarftu að gera?
Til að tryggja þér pláss þá þarftu að skrá þig sem allra fyrst. Takmarkað pláss í boði. SKRÁNINGARFRESTUR ER TIL OG MEÐ 1. SEPTEMBER. Staðfestingargjald er 3.500 kr. og er það eina sem þú þarft að borga fyrir allan daginn. Innifalið eru allar vinnustofur, morgunhressing, hádegismatur, kaffi, aðgangur í Spa-ið á Hótel Hilton og svo kvöldmatur og þrusuball um kvöldið. Einnig fá félagsmenn af landsbyggðinni ferðastyrk og gistingu á Hótel Hilton sér að kostnaðarlausu.
Má ég taka með mér gest?
Þessi viðburður er einungis fyrir félagsmenn í Krafti. En ef maki þinn, fjölskyldumeðlimur eða vinur er í Krafti þá er um að gera að hnippa í þau og hvetja þau til að mæta líka.
Hvernig eru vinnustofurnar?
Það verða fjölbreyttar og skemmtilegar vinnustofur yfir daginn og munum við senda út sérstakan póst til allra sem eru skráðir þar sem þú getur valið um vinnustofur yfir daginn.
Dæmi um vinnustofur eru:
- Öndunar og kuldaþjálfun með Andra Iceland
- Björgvin Páll handboltamaður segir frá sínum áskorunum innan og utan vallar
- Gong og streitulosun frá Jógasetrinu
- Fítonsæfing með leynigesti
- Vöxtur í mótlæti og jákvæð sálfræði með Guðrúnu Snorradóttur markþjálfa
- Afródans með Dans Africa Iceland
- Núvitund og samkennd-námskeið frá Núvitundarsetrinu
- KraftsYoga
- KynKraftur vinnustofa með Kristínu kynlífsmarkþjálfa og Áslaugu kynfræðingi.
Ég bý úti á landi, hvernig kemst ég og hvar get ég gist?
Félagsmenn af landsbyggðinni munu fá bensínstyrk, eða flugstyrk og gistingu á Hótel Hilton sér að kostnaðarlausu. Vinsamlegast láttu okkur vita sem fyrst ef þú ert að koma utan af landi með því að senda tölvupóst á kraftur@kraftur.org.
Félagsmenn á höfuðborgarsvæðinu sem langar að gista á Hótel Hilton fá sérstakt tilboðsverð í gistingu og munum við senda póst um það. Einnig er hægt að fylgjast með á síðunni: Lífið er núna festivalið.