Skip to main content

Ný andlit á skrifstofu Krafts!

By 3. september 2025október 13th, 2025Fréttir

Kraftur, félag ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda þeirra, hefur ráðið þær Evu Sigrúnu Guðjónsdóttur, Guðnýju Söru Birgisdóttur og Ragnhildi Þóru Hafsteinsdóttur til félagsins.

Eva Sigrún mun gegna stöðu markaðs- og kynningarstjóra hjá Krafti. Hún er með MSc. í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum og býr yfir víðtækri reynslu af markaðs- og kynningarstarfi, meðal annars frá Háskólanum í Reykjavík þar sem hún hefur undanfarin ár sinnt vísindamiðlun og markaðsmálum. Hún hefur auk þess byggt upp vörumerki í kringum hlaðvarpið Bragðheimar og sinnt ýmsum verkefnum því tengdu. Eva mun stýra árlegri vitundarvakningu Krafts og styðja við vaxandi ímynd og kynningarstarfsemi félagsins.

Guðný Sara er fjáröflunarstjóri félagsins. Hún er með bakgrunn í skapandi greinum og með meistarapróf í hönnun og kennslufræðum. Hún hefur sinnt ýmsum störfum og verkefnastjórnun í gegnum árin, sérstaklega í þágu barna og ungmenna á ólíkum menningarstofnunum. Guðný vill virkja samfélagið í takt við sterka sýn Krafts um að styðja eins vel og hægt er við ungt krabbameinsgreint fólk og aðstandendur þeirra. Hún mun nýta sína þekkingu til að styrkja við árangursríka fjáröflun félagsins með hinum ýmsu viðburðum og aðgerðum

Ragnhildur Þóra mun gegna stöðu fræðslu- og hagsmunastjóra og kemur til Krafts með mikla reynslu úr atvinnulífinu. Hún starfaði síðast sem deildarstjóri á skammtímaheimili á vegum barnaverndar Reykjavíkur. Hún er með MSc í forystu og stjórnun. Ragnhildur mun sinna hagsmunagæslu, fræðslu og stuðningi við félagsmenn og aðstandendur þeirra og kemur til félagsins með dýrmæta reynslu af því að hafa sigrast á krabbameini.

Kraftur veitir fjölbreytta þjónustu og stuðning fyrir ungt fólk og aðstandendur þeirra, sem mörg hver eru að fást við stærstu verkefni lífs þeirra. Markmiðið hjá Krafti er að grípa og styðja við félagsmenn eftir fremsta megni. Félagið reiðir sig á styrki frá fyrirtækjum og einstaklingum og vinnur metnaðarfullt markaðs- og fjáröflunar starf allt árið um kring

„Þær Eva, Guðný og Ragnhildur  munu leiða lykilverkefni félagsins á sviði markaðs, fjáröflunar og fræðslu. Áhuginn á störfunum var mikill en alls bárust um 160 umsóknir. Við erum þakklát fyrir þennan áhuga og stolt af því að fá þessar kraftmiklu konur til liðs við okkur,“ segir Sólveig Ása Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Krafts