„Maður fær frá fyrstu hendi upplifun og reynslu frá fólki sem er búið að ganga í gegnum þetta.“
„Þetta var í raun eitt mesta áfall sem hægt er að upplifa að greinast með krabbamein. Það sem kemur einhvern veginn upp í hugann er “þetta er búið” og það er ekkert smá mál að eiga við þessa hugsun. Að geta talað við einhvern sem hefur upplifað þetta og gengið í gegnum þetta er einstakt. Það koma upp svo margar spurningar bæði tilfinningalegar og líkamlegar. Ég tala ekki um þegar það á að fara taka ákvarðanir þegar það liggja kannski á borðinu einhverjir möguleikar í því að gera hlutina svona eða hinsegin.
Jafningjafræðslan er alveg gríðarlega góð gagnvart því að skilja bara hvernig er að eiga við þetta, taka upplýstari ákvarðanir og geta líka fengið innsýn inn í það hvernig er að upplifa þetta. Hvernig er að ganga í gegnum þetta áður en þú gerir það sjálfur. Þarna er ég í raun sem stuðningsfulltrúi að nýta það sem ég hef gengið í gegnum og hjálpa öðrum að líða betur.
Að ganga einn í gegnum svona er ekki gott vegna þess að þetta er mikið að eiga við og getur sótt mikið á mann. Það er svo mikils virði að hafa einhvern til að tala um þetta við og opna málið gagnvart öðrum. Það gerir alla þessa hluti miklu auðveldari. Stuðningsnetið er alveg gríðarlega mikilvægt fyrir einstaklinginn sem er að greinast. En það er ekki síður mikilvægt að Stuðningsnetið kemur inn á aðstandendur því þeir eru líka að ganga í gegnum hlutina með þeim sem greinast og þurfa á stuðningi að halda.“
Guðmundur er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu