Miðvikudaginn 17. júlí ætlar Kraftur að vera með Frísbígolf á Klambratúni undir yfirskriftinni Krabbamein fer ekki í frí. En á hverjum miðvikudegi í júlí stendur Kraftur fyrir viðburði undir yfirskriftinni Krabbamein fer ekki í frí fyrir félagsmenn sína þar sem við höfum að megin markmiði að koma saman, njóta útivistar og líðandi stundar. Viðburðirnir eru bæði fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein sem og aðstandendur og er tilvalin stund fyrir vini og fjölskyldu að koma saman.
Við ætlum við að hittast klukkan 17:00 hjá bílastæðinu við Kjarvalsstaði. Við munum síðan rölta saman inn á túnið í frísbígolf. Þú þarft ekkert að kunna leikinn heldur förum við yfir reglurnar og höfum svo gaman saman en aðal markmiðið er ekki að vinna heldur að koma saman og njóta líðandi stundar og vonandi góða veðursins 🙂
Endilega meldið ykkur hér á Facebook til að við vitum hversu margir eru að koma.
Krabbamein fer ekki í frí er vitundarvakning Krafts sem snýr að því að vekja athygli á því að þótt fólk fari í sumarfrí þá fer krabbamein ekki í frí. Oft getur verið minni starfsemi og þjónusta yfir sumartímann í heilbrigðisgeiranum og kvartar fólk oft undan takmarkaðri þjónustu.
Kraftur hefur því tekið saman á einn stað hvernig opnun er hjá hinum ýmsu þjónustuaðilum fyrir fólk sem greinist með krabbamein og aðstandendur svo fólk viti hvert það getur leitað og hvenær þar sem við gerum okkur grein fyrir að krabbamein fer ekki í frí.
Einnig munum við standa fyrir vikulegum viðburðum í júlí fyrir félagsmenn sína þar sem markmiðið er að koma saman, stunda útivist og njóta líðandi stundar.