Á Menningarnótt þann 24. ágúst klukkan 14:00 munum við opna ljósmyndasýninguna – Skapa fötin manninn? – fyrir utan Hörpuna í Reykjavík. Við bjóðum alla landsmenn hjartanlega velkomna á sýninguna en hún mun standa fram yfir miðjan september.
Kári Sverriss ljósmyndari og Kraftur hafa tekið höndum saman og sett upp ljósmyndasýningu þar sem módelin eru ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein. Módelin eru öll stíleseruð af Sigrúnu Ástu Jörgensen og eru í tískufatnaði frá ýmsum aðilum.
Við vörpum fram spurningunni „Skapa fötin manninn?“ þar sem við erum að velta því fyrir okkur hvað er það sem grípur athygli okkar fyrst. Eru það fötin, ör eða annað? Oft reyna þeir sem bera ör eða merki þess að hafa gengið í gegnum erfiðleika að fela merki þess með fatnaði eða fylgihlutum. En með þessari sýningu langar Kára að gera akkúrat öfugt þ.e. opna fyrir örin eða gera þau sýnileg í bland við fatnað. Þannig að fólk geti borið örin með stolti þar sem þau eru vitnisburður um þeirra sigra en ekki eitthvað sem það á að fela.
Ljósmyndasýningin er hluti af afmælisári Krafts en í ár fögnum við 20 ára starfsafmæli. Í hverjum mánuði þetta árið erum við með vitundarvakningu eða einhvern viðburð fyrir félagsmenn sem og aðra til að fagna þessum merka áfanga. Ljósmyndasýningin er viðburður ágústmánaðar og verða ljósmyndirnar til sýnis á útistöndum fyrir framan Hörpuna.