Kraftur er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur. Félagið er hagsmuna- og stuðningsfélag fyrir ungt fólk á aldrinum 18-40 ára. Aðstandendur geta einnig gerst félagsmenn, án tillits til aldurs.
Það sem er í boði hjá Krafti:
- Jafningjastuðningur og stuðningsnet þar sem reynsluboltar sem annars vegar greinst hafa með krabbamein eða eru aðstandendur ræða málin.
- Alhliða ráðgjöf og stuðningur við krabbameinsgreint ungt fólk og aðstandendur þess.
- Sálfræðiþjónusta án endurgjalds.
- Fjárhagslegur stuðningur í formi neyðarsjóðs sem úthlutar styrkjum til félagsmanna sinna sem eiga í fjárhagsörðugleikum vegna krabbameins sem og styrkur til lyfjakaupa sem tengjast veikindum viðkomandi.
- Endurhæfing í formi útivistar og hreyfingar undir handleiðslu íþróttafræðings. Má þar nefna almennar æfingar, jóga, göngur, badminton og aðra fjölbreytta líkamsþjálfun sem og fjarþjálfun fyrir þá sem þess óska.
- Fræðsluefni og fræðslufyrirlestrar um málefni sem tengjast krabbameini og ýmis bjargráð sem nýtast í þeirra baráttu sem og ýmiss konar fræðsluútgáfa.
- Stuðningshópar. Kraftur starfrækir ýmsa stuðningshópa þar sem einstaklingar koma reglulega saman og ræða opinskátt um veikindin og áhrif þeirra á lífið og tilveruna. Stuðningshóparnir eru líka með lokaðar Facebook-síður þar sem allir geta átt samskipti ýmist krabbameinsgreindir eða aðstandendur.
- Markþjálfun er aðferðarfræði sem miðar að því að laða fram það besta hjá hverjum og einum.
- Réttinda- og hagsmunagæsla. Kraftur veitir félagsmönnum sínum upplýsingar um sín réttindi meðan á veikindum stendur og eftir það. Kraftur gætir hagsmuna félagsmanna og stendur vörð um réttindi þeirra gagnvart opinberum aðilum.
- Viðtalstímar á Landspítalanum alla miðvikudaga frá 10 til 11.
- Ýmsir viðburðir fyrir félagsmenn til áminningar um það að njóta líðandi stundar. Má þar nefna aðventukvöld, sumargrill, endurhæfingarhelgar og kaffihúsakvöld.
Allar nánari upplýsingar um Kraft og þjónustu félagsins er á heimasíðu Krafts.