Skip to main content

Berglind Þóra Haraldsdóttir

„Það er svo gott að tala við einhvern sem skilur nákvæmlega það sem þú ert að ganga í gegnum.”

„Það var alveg rosalegt áfall fyrir mig, fjölskylduna og vinina þegar ég greindist með krabbamein. Það er enginn að búast við því að vera 20 ára og greinast með krabbamein. En við tókum bara á því og fórum saman í gegnum þetta ferli.

Ég sótti um í Stuðningsnetinu og fékk viðtal við stuðningsfulltrúa sem hjálpaði mér mjög mikið en fjölskylda og aðrir hefðu í raun líka átt að gera það. Það var mjög gott að spjalla um hlutina og fá að heyra reynsluna frá stuðningsfulltrúanum. Við gátum borið saman bækur okkar og talað um ýmislegt sem ég gat ekki talað um við neinn annan. Það var svo gott að tala við einhvern sem skildi nákvæmlega það sem ég var að ganga í gegnum.

Ég hitti sálfræðing einu sinni og félagsráðgjafa líka en það var bara allt öðruvísi. Það er meiri skilningur að tala við einhvern jafningja sem er á svipuðum aldri og hefur lent í þessu. Það var alveg gott að hitta fagfólkið en mér fannst bara betra að hitta jafningja á jafningjagrundvelli. Það er svo gott að fá svör við spurningum sem maður kannski þorir ekki beint að spyrja lækninn eða vill ekki tala um við foreldra sína og þess háttar.

Ég hvet alla til að taka þetta skref og sækja um stuðning. Ég er alveg viss um að þú munt ekki sjá eftir því og þetta muni hjálpa þér mjög mikið.”

Berglind Þóra er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu