Skip to main content

Gísli Álfgeirsson

„Það þroskar mann mikið að vera stuðningsfulltrúi og kennir manni almenna samkennd með náunganum“

„Konan mín greindist árið 2013 með brjóstakrabbamein og fór þá lyfjameðferð, brjóstnám og geisla. Hún greindist svo aftur árið 2015 og þá var krabbameinið búið að dreifa sér um líkamann.

Í þessu stóra sorgarferli sem hefst þegar maður fær að vita að maki manns sé með krabbamein þá skiptir rosalega miklu máli að fá hjálp og stuðning. Maður kemst ekki í gegnum þessa reynslu án þess að tala við einhvern eða það efast ég stórlega. Ég er búinn að prófa að vinna mig frá þessu og drekka mig frá þessu. Hvorugt gengur. Það var ekki fyrr en að ég bað um aðstoð og stuðning að þetta fór að ganga.

Ég ákvað að gerast stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu til að hjálpa öðrum aðstandendum. Aðstandendum sem eiga jafnvel maka með brjóstakrabbamein og börn. Maður þarf að styrkja foreldrið til að geta styrkt barnið sitt. Þannig að það er ekki alltaf að barnið þurfi stuðning í Stuðningsnetinu heldur að það þurfi stuðning foreldri síns. Þá er um að gera að foreldrið geti fengið stuðning hjá Stuðningsnetinu fyrir sig. Ég vona að það hjálpi þeim en það hjálpar mér ekki síður. Að geta talað um þetta og miðlað af eigin reynslu. En í flestum tilfellum er ég bara að hlusta. Stuðningsnetið er svo mikilvægt því þar er fólk eins og ég og þú sem deila sömu reynslu. Svona jafningjastuðningur er einstakur.“

Gísli er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu