Skip to main content

Guðrún Sesselja Sigurðardóttir

„Mér finnst svo mikilvægt að geta talað við einhvern sem hefur verið þarna. Sem getur bara sagt – Já ég veit.“

„Maðurinn minn sem var þá kærasti minn greindist með krabbamein árið 2016 og við vorum með fjögur börn á bilinu eins til fimmtán ára. Þegar maður á svona stóra fjölskyldu og mörg börn þá er alveg nóg að díla við bara það á hverjum degi og svo bættist þetta við. Mér fannst þetta vera óyfirstíganlegt verkefni. Ég sá ekki hvernig ég ætti að gera þetta og þegar ég fór á vefsíðu Krafts og sá að þarna var hægt að sækja um jafningjastuðning þá smellti ég strax á hnappinn og bað um stuðning. Ég var svo fegin að ég þurfti ekki að hringja og tala við einhvern því ég er ekki viss um að ég hefði getað það.

Mér fannst einhvern veginn eins og enginn skyldi mig og ég hugsaði strax: Ég verð að tala við einhvern sem getur sagt mér, hvernig ég á að gera þetta? Hvernig ég á að fara að þessu? Ég varð að fá manneskju sem hafði gengið í gegnum krabbamein með stóra fjölskyldu. Mér var alveg sama um kynið, eða krabbameinið mig vantaði einhvern sem hafði lifað þetta af með stóra fjölskyldu. Sá veiki er alltaf miðpunkturinn en það er líka alveg rosalega erfitt að vera aðstandandi og þeir þurfa líka hjálp. Það er ekkert sjálfgefið að fólk komi auga á það. Þegar að einn aðili veikist og er tekinn í burtu þá er þarna fjölskylda sem er án eins útlims og þarf að læra að gera hlutina upp á nýtt. Ég hef ábyggilega aldrei verið eins umvafin jafn miklu af fólki og þetta sumar sem hann var að lasinn en ég hef samt aldrei upplifað mig jafn einmana. Mér fannst ég vera eyland. En stuðningsfulltrúinn minn hún skyldi hvað var að gerast og hún gat sagt mér hvað hún hafði gert.

Það munar svo miklu að geta talað við einhvern sem skilur þig. Einhvern sem hefur verið þarna og getur sagt – já ég veit. Það er bara þessi fullvissa að manneskjan sem þú ert að tala við veit hvað þú ert að tala um.“

Guðrún Sesselja er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu