Skip to main content

Högni Sigurjónsson

„Það skiptir svo miklu máli að heyra í og hitta fólk sem er á sama róli.“

„Þegar ég greindist með krabbamein þá hægðist hreinlega á öllu, hægðist allt lífið og allt fór miklu hægar fram. Í stofnfrumumeðferðinni varð ég rosalega veikur og eftir krabbamein forgangsraðaði ég bókstaflega öllu í lífi mínu og fékk allt aðra sýn á lífið, í dag eru sumir hlutir sem áður virtust mega bíða ,,betri tíma“ meira virði og framar í forgangsröðinni, gildismatið er annað.

Að mínu mati ætti fólk sem greinist eða er aðstandandi að setja sig í samband við Stuðningsnetið og heyra hvernig aðrir eru að upplifa veikindin. Það er svo margt sem læknirinn getur ekki sagt okkur en fólk sem er komið á þennan stað veit orðið ýmislegt. Það skiptir bara máli að tala við fólk sem er á sama róli og ekki síst að sjá að fólk hefur lifað af að hafa greinst með krabbamein og að krabbamein er ekki alltaf dauðadómur.

Það skiptir miklu máli að heyra í og hitta fólk sem er á sama róli. Við getum ekki sturtað þessu öllu yfir fjölskyldu, vini eða vinnufélaga, þau hafa ekki endalausa þolinmæði fyrir því. Að mínu mati á fólk bara að hafa samband við Stuðningsnetið, það getur svo metið það eftir á hvaða gagn það hefur af því.“

Högni er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu