Skip to main content

Nílsína Larsen Einarsdóttir

„Það er enginn sem skilur þessa upplifun nema sá sem hefur farið í gegnum hana.” 

„Ég hef verið aðstandandi þar sem pabbi minn greindist með krabbamein í hálsi þegar ég var tvítug og svo hef ég sjálf líka fengið krabbamein. Ég var 32 ára þegar ég greindist með eitlakrabbamein á þriðja stigi og þurfti að fara í gegnum miklar lyfjameðferðir og endaði á að þurfa fara í stofnfrumumeðferð. Mér var haldið sofandi eftir eitrunaráhrif meðferðar og var tvísýnt hvort ég myndi vakna aftur. En hér er ég í dag.

Það gerði mér mjög mikið að fá jafningjastuðning á sínum tíma og því er ég sjálf núna stuðningsfulltrúi. Það að hitta einhvern sem hafði farið í gegnum það sama og ég var að fara í gegnum gaf mér svo mikla von. Að hitta manneskju sem leit bara þokkalega vel út eftir þetta allt saman, með hár, augabrúnir, augnhár, sömu örin og ég, og geislandi líf í augunum – ef að hún gat þetta þá mundi ég kannski bara mögulega geta þetta líka.

Þegar maður greinist með lífsógnandi sjúkdóm þá er ákaflega mikilvægt að maður fái tækifæri að ræða málin við fagaðila svo sem lækna, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga. En jafningjastuðningur er ótrúlega mikilvæg viðbót. Að tala við einhvern sem hefur verið í þínum sporum og skilur þitt landslag og þinn heim akkúrat þar sem þú ert núna.

Krabbamein hefur líka gífurlega mikil áhrif á alla í kringum þann greinda. Ert þú vinur, maki, frændi eða vinkona og það er einhver nákominn þér sem er að ganga í gegnum krabbamein og þig langar til að vera til staðar? Þá er um að gera að taka bara upp símann og hringja í Stuðningsnetið og fá aðstoð.”

Nílsína er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu