Skip to main content

Ólafur Einarsson

„Jafningjastuðningur hjálpar og flýtir batanum því andlega hliðin er oft vanmetin.“

„Þegar ég greindist með hvítblæði þá var Stuðningsnetið ekki til en ég hefði svo sannarlega þurft á svona stuðningi að halda þegar ég var yngri, eða allavegana á unglingsárunum. Það hefði hjálpað mjög mikið að finna fyrir stuðningi frá einstaklingi sem hefði áður gengið í gegnum það sama og ég.
Líkamlega er ég orðinn alveg 100% en ég er alltaf að berjast við hræðsluna um að fá aftur einhvers konar krabbamein.

Eftir að ég lauk meðferð á sínum tíma fékk ég engan stuðning eða sálfræðiaðstoð. Í rauninni var mér bara hent út í samfélagið eftir meðferðina og þegar ég kom til baka „í lífið“ var ég kallaður krabbameinssjúklingurinn. Þetta var í kringum 1998 og mín upplifun var að fólk og jafningjar væru að forðast mig. Í dag hef ég náð að byggja upp styrk en þetta var mjög erfitt, það var ekki bara erfitt að sigrast á krabbameininu heldur líka að koma aftur til baka út í lífið. Ég myndi segja að þetta hafi breytt mér og sýn minni á lífið. Það er búið að greina mig með almenna kvíðaröskun en ég hef unnið vel í því með hjálp fagfólks.

Þegar ég lít til baka og horfi á mig sem barn og ungling þá hefði það gert heilmikið fyrir mig að sjá einhvern sem væri búinn með meðferð og kominn á góðan stað í lífinu sem hefði lent í svipuðu og ég. Það hefði gefið mér mikinn styrk. Það er mismunandi hvernig fólk jafnar sig eftir meðferð en ég tel að allir þurfi að sjá og hitta einhvern sem er búinn að ganga í gegnum þetta, m.a. til að finna fyrir skilning og gefa manni von um framhaldið. Það er eitt að klára meðferðina en svo er það annað að jafna sig eftir meðferð og það tekur fólk mislangan tíma.

Jafningjastuðningur hjálpar og flýtir batanum því andlega hliðin er mjög vanmetin. Að mínu mati ætti að taka við meðferð sem vinnur í andlegu hliðinni eftir að maður klárar meðferðina. Fólk áttar sig kannski betur á því eftir á að það þurfti á meiri aðstoð að halda. Kannski telur það sig ekki hafa þörf á jafningjastuðningi en sér svo eftir því síðar meir. Ég er búinn að hitta ótrúlega mikið af fólki sem hefur verið með krabbamein. Það eru einhver ólýsanleg tengsl sem myndast og samstaða.“

Ólafur er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu