Skip to main content

Pétur Helgason

„Ég er miklu sterkari aðili í dag vegna Stuðningsnetsins.”

„Þegar við komumst að því að konan mín væri með brjóstakrabbamein þá hugsuðum við – við björgum þessu. Við fórum strax að pæla í því hvernig við ættum að ræða þetta opinskátt við börnin og það gerðum við og báðum þau svo að vera ófeimin við að spyrja allra spurninga sem þeim dytti í hug. Ég held það hafi verið rétt að segja bara börnunum hvernig hlutirnir nákvæmlega voru og vera ekkert að fegra þá.

Ég tók svo bara alla vinnuna, börnin, æfingarnar og sinnti öllu og konan mín fékk hlutverkið að sinna sínu verkefni, krabbameininu. Ég var alveg á þeirri skoðun í upphafi að þetta yrði ekkert mál að ég myndi bara græja þetta allt saman. En svo fór að koma upp óþægilegar tilfinningar, kergja og reiði. Ég vissi ekki alveg hvað var í gangi hjá mér og vissi ekki hvernig mér leið. Svo bara einn daginn í vinnunni tók ég upp símann og bókaði mig á fund í Stuðningsnetinu án þess að vita hvað ég ætti að segja. Og upp frá þessu varð daglega líðan mín betri því ég fór að skilja og læra að andlegi þátturinn skiptir miklu máli fyrir hvern þann sem er að ganga í gegnum álíka áfall. Stuðningsnetið hefur leiðbeint mér og hjálpað mér að skilja þessa andlegu vanlíðan. Ég bara veit að það var alveg frábært fyrir mig. Mig vantaði rosalega mikið að tala og fá að heyra frá öðrum. Ég er þakklátur. Þetta hjálpaði mér að skilja tilfinningarnar og að átta mig á aðstæðum. Ég lærði að slaka aðeins á og njóta og eiga tíma fyrir sjálfan mig og að eiga tíma fyrir okkur tvö þó við eigum fjögur börn.”

Pétur er stuðningsþegi í Stuðningsnetinu