„Maður getur ekki gert þetta allt sjálfur. Það er bara ekki hægt að höndla þessar aðstæður þannig.”
„Fyrir mér er krabbamein ekki það versta í heiminum. Ég á lítinn strák sem er mikið fatlaður og með erfiða flogaveiki sem mun alltaf hafa mikil áhrif á líf hans. Þetta var tímabil sem við gengum í gegnum en það kláraðist, við lærðum mikið af þessu og það þroskaði okkur. Ég hafði manninn minn sem fyrirmynd. Hann komst í gegnum þetta. Við komumst í gegnum hans veikindi og við skyldum komast í gegnum mín veikindi. Þetta var bara spurning um tíma. Mér fannst eiginlega erfiðara að vera aðstandandi. Þessi sem er veikur er að tækla sjúkdóminn, spítalann og það allt saman. Sá aðili hefur rosalega góðan stuðning, það koma allir og hjálpa honum. En að vera aðstandandi þá þarft þú líka að gera allt hitt.
Krabbamein er ekki alltaf það sama og krabbamein. Fyrir suma er þetta mjög alvarlegur sjúkdómur og getur verið rosalega erfiður. En aðrar tegundir af krabbameini eru öðruvísi og mjög margir læknast.
Þegar maður fær greininguna krabbamein þá er manni hent út í hringiðu sem maður hefur enga stjórn á. Maður þarf aðstoð. Maður fær aðstoð upp á spítala við sjúkdómnum og allt sem honum viðkemur en maður þarf aðstoð líka við þetta daglega líf. Hvernig maður á að höndla það því það er allt gjörbreytt núna. Það að tala við einhvern sem hefur gert þetta áður skiptir öllu máli. Maður talar öðruvísi við ókunnuga en einhverja sem maður þekkir. Maður er oft að hlífa sínum nánustu og segir ekki alveg hvernig manni líður í rauninni og því skiptir Stuðningsnetið svo miklu máli.
Maður getur ekki gert þetta allt sjálfur. Það er bara ekki hægt að höndla þessar aðstæður þannig. Því er um að gera að leita til Stuðningsnetsins og fá stuðning og ráðgjöf frá einhverjum sem hefur verið í manns eigin sporum. Upplifað það sama og komist í gegnum það hvort sem þú ert krabbameinsgreindur eða aðstandandi.“
Sóley Erla er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu