Skip to main content

Hjóluðu af krafti á skrifstofunni

Starfsmenn á skrifstofu Domino’s á Íslandi ákváðu að sýna viljann í verki og styðja við Kraft með því að standa fyrir „hjólaþoni“ á skrifstofu höfuðstöðva sinna föstudaginn, 29. janúar og safna í leiðinni áheitum fyrir Kraft.

„Þar sem hjá Domino´s starfar mikið af ungu fólki auk þess sem stærsti hluti viðskiptavina er ungt fólk, höfðaði vitundarvakning Krafts vel til fyrirtækisins. Við ákváðum því að hjóla af krafti til styrktar félaginu og safna áheitum í leiðinni,“ sagði Helga Thors, markaðsstjóri Domino’s á Íslandi. Fyrirkomulagið var þannig að hver og einn starfsmaður hjólaði í hálftíma frá klukkan 08:30 til 16:30 inni á skrifstofunni á tveimur innanhúshjólum sem fengust að láni hjá Kríu hjólaverslun.

Á þessum átta klukkustundum hjóluðu starfsmennirnir alls 400 km og söfnuðu 440.000 krónur fyrir Kraft eða 1100 krónur fyrir hvern kílómeter. „Við erum einstaklega stolt af hvert öðru fyrir kraftinn og það skapaðist mikil stemning á skrifstofunni á meðan á hjólaþoninu stóð. Lífið er svo sannarlega núna,“ sagði Helga eftir að hjólaþoninu lauk.

Stjórn og starfsfólk Krafts þakkar starfsfólki Domino’s á Íslandi innilega fyrir kraftinn og dugnaðinn. Framtak sem þetta hjálpar svo sannarlega félaginu við að hjálpa ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum.