Skip to main content

Jólagjöfin að styrkja Kraft

By 20. desember 2018mars 25th, 2024Fréttir
Síðastliðin fjögur ár hafa þau hjá Creditinfo ekki gefið viðskiptavinum jólagjafir og ekki sent út jólakort, heldur efnt þess í stað til góðgerðar­viku sem í ár var haldin fyrstu vikuna í desember. Fer hún þannig fram að starfsfólk skiptist í hópa sem reyna svo að afla eins mikils fjár og mögulegt er í eina viku. Creditinfo leggur svo sömu upphæð á móti í söfnunina.

Meðal verkefna þetta árið var jólabingó, hádegisverður fyrir alla starfsmenn (eldaður frá grunni og borinn fram af starfsfólki), morgunverður, bílaþvottastöð, kakósala og framleiðsla á kryddsalti svo eitthvað sé nefnt.

„Frá því að verkefnið hófst fyrir fjórum árum síðan hefur verkefnið vaxið þar sem starfsmenn ætluðu sér að safna 100.000 kr. en söfnuðu rúmlega 600.000 kr. Í ár fór söfnunin fram úr okkar björtustu vonum en stefnan var alltaf sett á að trompa síðasta ár,“ segir Brynja Baldursdóttir framkvæmdastjóri Creditinfo.

En í ár söfnuðust hvorki meira né minna heldur en 1,7 milljón fyrir Kraft!

„Við hjá Krafti þökkum fyrir þennan ómetanlega stuðning. Það er einmitt
vegna framtaks einstaklinga og fyrirtækja sem þessa sem gerir okkur kleift að standa við bakið á félagsmönnum okkar. Við sendum starfsfólki Creditinfo okkar bestu kveðjur og TAKK FYRIR AÐ VERA ÆÐI“, segir Hulda Hjálmarsdóttir framkvæmdastjóri Krafts.