Skip to main content

Kraftmikil strákastund á Kex frestað um óákveðinn tíma

Í ljósi breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu munum við fresta Kraftmikilli strákastund um óákveðinn tíma. En við munum halda hana um leið og aðstæður í samfélaginu leyfa.

———————-

Í tilefni af Mottumars stendur Kraftur fyrir kraftmikilli strákastund á Kex næstkomandi fimmtudag, 25. mars. Markmiðið með strákastundinni er að deila reynslu karlmanna sem hafa verið snertir af krabbameini á einn eða annan hátt, hvort sem þeir hafa greinst eða eru aðstandendur.

Matti Osvald Stefánsson, markþjálfi, og Þorri Snæbjörnsson, sálfræðingur Krafts, munu leiða þessa kraftmiklu strákastund. „Við strákar erum oft ekkert duglegir við að ræða um okkar reynslu en það getur verið afskaplega gott að heyra í kynbræðrum okkar og heyra hvernig þeir hafa tæklað hlutina. Við vitum alveg að stelpurnar eru oft duglegri við að ræða sín á milli en það er alveg jafn nauðsynlegt fyrir okkur að gera það líka og deila reynslunni“, segir Matti.

Reynsluboltar munu koma fram og segja frá sinni reynslu. Þar á meðal verða Kári Kristján Kristjánsson, landsliðsmaður í handbolta, sem mun segja frá sinni reynslu og sjokkinu við það að greinast tvisvar með æxli í bakinu. Pétur Helgason mun segja frá sinni reynslu en konan hans greindist með brjóstakrabbamein og hélt Pétur fyrst að hann myndi geta græjað allt saman en svo fóru að koma upp óþægilegar tilfinningar, kergja og reiði. Arnar Sveinn Geirsson mun segja frá því hvernig hann gróf tilfinningar sínar eftir að hann missti mömmu sína úr krabbameini og hvaða áhrif það hefur haft á hann.

Eyþór Ingi mun svo troða upp með tónlistaratriði í lok kvölds. Einnig verður tilboð á mat og drykk á veitingastaðnum Flatus fyrir stráka sem mæta á svæðið. „Það er takmarkað sætapláss í boði í ljósi sóttvarnarákvæða sem við fylgjum að sjálfsögðu í einu og öllu. En við vitum hversu mikilvæg þessi stund er og hvað það getur skipt miklu máli að hitta jafningja í svipaðri stöðu og því hvetjum við stráka eindregið til að skrá sig og mæta á svæðið,“ segir Þorri.

Hægt er að skrá sig á strákastundina hér.