Skip to main content

Kraftsblaðið 2023 er komið út

Kraftsblaðið er komið út og eins og áður er það smekkfullt af áhugaverðum greinum, viðtölum og öðru efni. Má þar nefna viðtal við Kristjönu Björk Traustadóttur og Atla Viðar Þorsteinsson en þau hafa svo sannarlega þurft að reyna margt undanfarin ár. Covid, barneignir, atvinnumissir, heilsubrestur, andlát í fjölskyldunni, sorg og svo greindist Kristjana með brjóstakrabbamein ofan á allt saman.

Við skyggnumst inn í líf Egils Þórs sem var í síðasta tölublaði Krafts en Egill greindist með stóreitilfrumukrabbamein og var vart hugað líf. Nú ári síðar fengum við að heyra hvernig staðan hjá honum er.

Við skoðum ástandið á Landspítalanum og krabbameinsdeildunum og Sunna Kristín Hilmarsdóttir, félagskona í Krafti, skrifaði einnig mjög áhugaverðan pistil í blaðið um lífsreynslu sína að greinast með mergæxli einunigs 37 ára gömul og missa vinkonu sína úr krabbameini um svipað leyti og hún var sjálf að hefja meðferð.

Blaðið er að auki með greinum sem snúa að starfsemi Krafts fyrir félagsmenn, viðburðum, ráðum til aðstandenda, og öðru eins.

Blaðinu er dreift á þó nokkrar N1 stöðvar um land allt og getur fólk gripið það með sér, ýmsar heilbrigðisstofnanir landsins fá einnig blað til sín sem og félagsmenn Krafts og fleiri. Blaðið má lesa hér á netinu í heild sinni en ekki hika við að senda okkur tölvupóst ef þú vilt fá blaðið sent til þín.

Blaðið er ein af fjáröflunarleiðum félagins og erum við ævinlega þakklát öllum þeim fyrirtækjum sem styrktu okkur með auglýsingum og styrkarlínum.

Eftirfarandi sáu um blaðið í ár:

  • Ábyrgðarmenn og ritstjórar: Laila Sæunn Pétursdóttir, Sunna Kristín Hilmarsdóttir, Aðalheiður Dögg Finnsdóttir og Þórunn Hilda Jónasdóttir
  • Umbrot: Hrefna Lind Einarsdóttir
  • Forsíðumynd: Þórdís Reynisdóttir
  • Prófarkalestur: Guðlaug Birna Guðjónsdóttir
  • Prentun: Prentmet-Oddi ehf.