Skip to main content

Kraftur klífur Fimmvörðuháls

Mánudaginn 27. júní hélt kraftmikill hópur Kraftsfélaga af stað yfir Fimmvörðuháls í fylgd frábærra leiðsögumanna frá Midgaard Adventures. Veður lék við hópinn þrátt fyrir að það hefðu verið skúrir á köflum framan af, en gengið var 24 kílómetra, þar af u.þ.b. 4 km í snjó. Leiðsögumennirnir pössuðu vel upp á hópinn, að öll nærðust vel og að gengið væri á þeim hraða sem hentaði hverjum og einum.

Gangan tók á en fegurð náttúru Íslands bætti það upp jafnóðum og gaf mikinn styrk á erfiðri og langri göngu. Göngunni var skipt upp í þrjá parta, þar sem fyrst var gengið frá Skógum og upp eftir Skógargljúfri en þar er að sjá fjölmarga dásamlega fossa á leiðinni og upp að göngubrúnni yfir Skógá. Frá brúnni tók við erfiður kafli þar sem gengið var upp að Baldvinsskála og löng og góð nestispása tekin eftir það. Frá Baldvinsskála var gengið yfir Fimmvörðuhálsinn en þar mætast Eyjafjallajökull og Mýrdalsjökull. Svæðið hefur tekið miklum breytingum og því margt að sjá eins og til dæmis nýju gígana Magna og Móða sem mynduðust í gosinu 2010.

Heppnin var með hópnum því nokkuð var um snjóþungar brekkur sem unnt var að renna sér niður að Heljarkambi. Krafsfélagar létu nafnið ekkert á sig fá og skottuðust auðveldlega yfir. Að lokum var gengið niður í Þórsmörk í dásamlegu veðri. Sól og 16 gráður mættu hópnum þegar komið var í Bása en þar grillaði Midgaard Adventure fyrir hópinn sem rann ótrúlega vel niður eftir heilan dag á göngu.

Stjórn og starfsfólk Krafts vill þakka þessum geggjaða hópi Kraftsfélaga sem gekk á vit ævintýranna yfir Fimmvörðuhálsinn með Krafti – þið eruð algjörar hetjur! Einnig viljum við þakka Midgaard Adventure fyrir þá frábæru þjónustu sem þau bjóða upp á.

Hér má sjá nokkrar myndir frá þessum dásamlega degi.