Skip to main content

Krúnuraka sig til styrktar Krafti

Frænkurnar Helga Lára Grétarsdóttir og Edda Sigrún Jónsdóttir safna nú áheitum til styrktar Krafti inni á Kass undir heitinu AF MEÐ HÁRIÐ. Markmið þeirra er að safna 300.000 krónum fyrir Kraft fyrir þriðjudaginn 23. mars 2021 og ef það tekst þá ætla þær báðar að krúnuraka sig.

„Við Edda erum systkinabörn og höfum báðar verið snertar af krabbameini. Elskulegi pabbi minn lést úr krabbameini fyrir fjórum árum síðan og systir foreldra okkar greindist einnig með krabbamein þegar hún var ung stelpa og tókst að sigrast á því. Þau eru fyrirmyndirnar okkar. Því er málefnið okkur afar kært,“ segir Helga Lára. Þær frænkur hafa báðar lengi verið að velta því fyrir sér að krúnuraka sig og þegar það barst svo í tal hjá þeim nýverið þá datt þeim ekkert annað í hug en að safna í leiðinni fyrir góðu málefni og slá þannig tvær flugur í einu höggi. „Það er verið að vinna svo ótrúlega mikilvægt starf hjá Krafti svo það kom ekkert annað til greina en að safna fyrir félagið. Við þekkjum báðar fólk sem hefur nýtt sér þjónustu félagsins og komið sjálfar á viðburði og við vitum að fjármunirnir munu vera nýttir vel,“ segir Helga Lára enn fremur.

Hægt er að hjálpa frænkunum að ná markmiði sínu með því að styrkja þær í gegnum Kass forritið undir heitinu AF MEÐ HÁRIÐ. En einnig er hægt styrkja með frjálsum framlögum inn á reikning 0123-15-024056 kt. 170403-2310.