Skip to main content

Aðventukvöld Krafts var haldið með öðru sniði í ár

Jólastund Krafts í stofunni

Kraftsfélagar nutu dásamlegra stunda saman í netheimum í gær, 3. desember, en þá var Aðventukvöld Krafts haldið með öðru sniði heima í stofu hjá félagsmönnum Krafts. Frá stofnun félagsins hefur ætíð verið haldið Aðventukvöld þar sem félagsmenn, fjölskyldur og vinir hafa komið saman og notið góðra stunda. Nú þurfti að hugsa út fyrir rammann og því brugðið á það ráð að flytja aðventustundina heim í stofu. Kraftsfélagar skráðu sig á viðburðinn í gegnum fjarfundarbúnaðinn Teams og var haldin skemmtileg aðventustund þar.

Greinilegt var að margar fjölskyldur höfðu lagt mikinn metnað í skreytingar og höfðu klætt sig upp fyrir kvöldið. Jólaandinn sveif yfir og hátíðlegt að sjá alla saman á skjánum. Um 270 skráðu sig til leiks um kvöldið og tóku virkan þátt í kvöldinu en bæði var bingó og spurningaleikir á dagskrá með vinningum frá góðum fyrirtækjum.

Jólasveinar keyrðu vinninga heim til fólks

Jólabingóið sló rækilega í gegn og var greinilegt að Kraftsfélagar eru miklir bingóáhugamenn. Arnar og Linda, stjórnarmeðlimir, stóðu sig eins og algjörar hetjur við bingóstjórn og nokkuð ljóst að þau eiga feril framundan í þessum skemmtanabransa. Þau reittu af sér brandara og nutu þess líka að sjá spenninginn í augum „viðstaddra“. Um leið og einhver fékk bingó þá ruku jólasveinar Krafts af stað og keyrðu vinninginn heim að dyrum hjá fólki á höfuðborgarsvæðinu sem vakti mikla lukku vinningshafa.

Hulda, framkvæmdastjóri Krafts, fékk heiðurinn að keyra aðalvinninginn í bingó-inu út og var bein útsending frá því eins og gerist hjá sjónvarpsstöðvunum á skemmtikvöldum. Eftir bingó-ið var haldið áfram í æsispennandi spurningaleik þar sem keppt var í þremur flokkum: Fyrir börnin, fjölskylduna og ofurhuga. Spurningarnar snérust að sjálfsögðu allar um jól og aðventuna og auðvitað fengu vinningshafar í þeim leikjum líka jólasveinsheimsókn til sín.

Jólastundin gladdi hjörtu allra

Jólastundin vakti mikla lukku og var augljóst að hún gladdi alla sem tóku þátt þó að ekki allir hafi fengið vinning og var ánægjulegt að „hittast“ og eiga þessa stund saman. Félagsmenn úti á landi voru líka einstaklega ánægðir með þetta fyrirkomulag og að geta tekið þátt. Hver veit nema svona kvöld verði endurtekið til þess að sem flestir geti tekið þátt þó þeir geti ekki komið í eigin persónu.

Við þökkum öllum þeim sem komu á Jólastund í stofunni með Krafti sem og öllum þeim sem gerðu okkur kleift að gleðja félagsmenn okkar fyrir jólin.

Við þökkum ykkur

Við viljum þakka eftirtöldum fyrirtækjum og aðilum innilega fyrir stuðninginn og aðstoðina við að gera kvöldið svona einstakt og skemmtilegt.

Andrea 
Apótek 
Bjartur og Veröld
Byggt og búið
Domino’s
Eirberg
Ethic.is
Fjallkonan
Fjarðarkaup
Flatey
Hjálmar Jónsson
Húrra
Icewear
Jón Þórgeir Kristjánsson
Kidscoolshop
La Roche Posay frá Danól
Lín design
Maikai
Mena
Nova
Nútrí
Olifa
Omnom
Primo
Rakel Tómas
Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins
Sæta Svínið
Sambíóin
Snæfríður Halldórsdóttir
Suit Up
Sushi Social
Tapasbarinn
Tara Tjörva
TC Tech OÜ
Vistvera
Yuzu
Þjóðleikhúsið

Skemmtilegar myndir frá Jólastund Krafts í stofunni