Skip to main content

Breyttir tímar og aðstæður

Í ljósi breyttra aðstæðna þá höfum við í Krafti endurskoðað þá viðburði sem að til stóð að halda núna í október. Sumir viðburðir frestast um einhverja daga eða vikur meðan aðrir verða með breyttu sniði. Við munum að sjálfsögðu gæta allra sóttvarnarfyrirmæla og fylgja settum reglum á öllum viðburðum til að tryggja öryggi félagsmanna okkar.

Við vekjum líka sérstaka athygli á því að sálfræðitímarnir hjá Þorra sálfræðingi verða með breyttu sniði næstu vikurnar. Nú er viðvera sálfræðings aðra hverja viku, aðra vikuna eru viðtölin í Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins og hina vikuna er boðið upp á símaviðtöl. Þegar viðtölin eru á staðnum eru þau örlítið styttri, svæðið sótthreinsað á milli skjólstæðinga, grímuskylda og tveggja metra reglan í gildi. Ef þú vilt bóka þér tíma hjá sálfræðingi Krafts þá bendum við á síma 866-9618 eða netfangið: salfraedingur@kraftur.org.

Viðburðir Krafts í október

Þónokkrir viðburðir voru á dagskrá nú í október en nú hafa þeir frestast eða breyst á einhvern máta. Sjá hér að neðan:

StelpuKraftur

  • Bleikt boð – 5. október
    • Verður með breyttu sniði og nú haldið í gegnum netfund
  • Hittingur – 19. október
    • Að öllum líkindum í gegnum netfund -auglýst síðar.

     

Æfingar hjá FítonsKrafti

Æfingarnar verða nú úti undir berum himni næstu tvær vikurnar og njótum við þess að æfa saman úti.  Æfingarnar haldast á þriðjudögum og fimmtudögum milli 17:00 og 18:15 en auglýst verður á Facebook síðu hópsins hvar æfingarnar verða haldnar.  Við fylgjum að sjálfsögðu sóttvarnarreglum á æfingum og framlengjum útitímabilið ef svo ber undir.

FítonsKraftur – Hjólaævintýri í Heiðmörk

Helst á sama tíma 10. október milli kl. 11:00 og 13:00 þar sem við fáum að prófa hjól frá Lauf og okkur er kennt að fjallahjólast um Heiðmörk. Þetta er frábært tækifæri að prófa eitthvað nýtt og skemmtilegt úti í náttúrunni og er þar auðvelt að gæta að sóttvarnarreglum því hver og einn fær sitt hjól og við getum auðveldlega haldið 2 metra reglunni. Skráðu þig hér í þetta skemmtilega ævintýri.

Kröftugar konur í Hörpu

Átti að vera 21. október en frestast um óákveðinn tíma. Við viljum að sjálfsögðu hafa þennan viðburð einstaklega kröftugan og því höfum við ákveðið að fresta honum þar til samfélagið er orðið öruggara. Þær skráningar sem eru komnar á viðburðinn haldast og við verðum í sambandi þegar við erum búin að festa nýja tímasetningu.

Að klífa brattann – Heiðmörk

Verður 24. október milli kl. 11:00 og 12:30. Við mælum eindregið með að þú og þínir komið í þessa göngu. Það er svo gott að endurnæra sig úti í náttúrunni og hitta aðra. Úti í náttúrunni náum við að gæta að sóttvarnarreglum og getum tryggt gott bil á milli allra. Meldaðu þig endilega í þessa göngu en þetta er auðveld leið á flestra færi þar sem lítið er um hækkun og er gengið á merktri gönguleið.

Stuðningsfulltrúanámskeið

Verður haldið 26. október og 2. nóvember en að sjálfsögðu gætt að öllum sóttvarnarákvæðum. Sjá nánar hér.

AðstandendaKraftur – Hvernig tekst ég á við kvíða?

Frestast og er nú á dagskrá 27. október. Sjá nánar hér.

Finndu þinn eldmóð – markþjálfunarnámskeið

Frestast og er nú á dagskrá 28. október. Sjá nánar hér.

Við í Krafti viljum í einu og öllu sína gott fordæmi og leggja okkar að mörkum til að sporna við útbreiðslu á Covid19. Hér má hala niður breyttri dagskrá.