Skip to main content

Drulluerfitt en gefandi

By 4. október 2022október 5th, 2022Fréttir

Hjónin Viktoría Jensdóttir, félagskona í Krafti, ásamt eiginmanni sínum Stuart Maxwell hlupu nýverið sannkallað drulluhlaup í Bretlandi og söfnuðu áheitum til styrktar Krafti í leiðinni. Þau náðu að safna alls 382000 og ákváðu að láta peninginn renna í Minningarsjóð Krafts.

„Við hlupum í minningu vinkvenna minna Ingu, Gunnu, Evu og Vilborgu sem ég kynntist þegar ég var í krabbameinsmeðferð. Þær féllu því miður allar frá með stuttu millibili nú í sumar. Vinahjón okkar sem ætluðu að hlaupa með okkur þurftu því miður skyndilega að hætta við vegna persónulegra aðstæðna og því fórum við bara tvö. Þar sem við vorum að hlaupa í minningu stelpnanna þá fannst okkur ekki nema við hæfi að styrkja Minningarsjóð Krafts,“ sagði Viktoría við afhendingu styrksins. Tilgangur Minningarsjóðsins er að styrkja aðstandendur til að standa straum af útfararkostnaði þegar félagsmaður Krafts fellur frá vegna krabbameins eða afleiðingum þess.

Leðju-þrautahlaupið sem þau hjónin voru að taka þátt í er í heild 15 km og um 30 þrautir sem geta verið allt frá drullu í ísbað, raflost og táragas. „Þetta var bókstaflega alveg drulluerfitt en á sama tíma mjög gefandi. Ég var alveg við það að bugast nokkrum sinnum og í eitt skipti hélt ég hreinlega að ég myndi gefast upp og steig til hliðar og fór að hágráta. En þá stappaði Stuart í mig stálinu og fullt af öðrum keppendum sem voru þarna líka og ég hélt áfram og kláraði. Krabbameinsmeðferðin hefur alveg haft áhrif á þolið mitt en ég hvatti sjálfa mig líka endalaust áfram í hlaupinu. Ég lifði krabbameinsmeðferðina af og mér skyldi takast að klára þetta,“ sagði Viktoría enn fremur.

Stjórn og starfsfólk Krafts þakka Viktoríu, Stuart og öllum þeim sem hétu á þau innilega fyrir stuðninginn. Fjármunurnir sem fara í Minningarsjóðinn munu svo sannarlega koma að góðum notum og hjálpa öðrum.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá hlaupinu