Skip to main content

Fjölmargir komu og lögðu hönd á perlu

By 2. desember 2019mars 18th, 2024Fréttir

Sunnudaginn 1. desember komu rúmlega 450 manns saman á Icelandair Hótel Natura og perluðu nýtt „Lífið er núna“ armband í tilefni af 20 ára afmæli Krafts. En í heildina voru 1814 armbönd perluð sem eru í sannkölluðum norðurljósalitum og seld til styrktar félaginu

„Þetta var dásamleg aðventustund og svo yndislegt hversu margir sáu sér fært að koma til okkar á fyrsta í aðventu og leggja okkur lið með því að perla nýju armböndin okkar. Salan á armböndunum er ein helsta fjáröflun okkar og eru öll armböndin perluð af sjálfboðaliðum“, segir Elín Sandra Skúladóttir, formaður Krafts en hún opnaði aðventustundina ásamt dóttur sinni Karenu Ívu sem er fimm ára og finnst nýja armbandið vera í Frozen stíl.

Kraftur hefur verið starfræktur núna í 20 ár og hefur allt árið 2019 einkennst af afmælisviðburðum hjá félaginu. Viðburðirnir hafa m.a. verið ýmiskonar vitundarvakning, útgáfa bókar, fræðsluvefur, heimildarmynd, hlaðvarp, ljósmyndasýning og ýmsir aðrir viðburðum. Perluviðburðurinn á Hótel Natura var sá síðasti á árinu og heppnaðist sérlega vel. Háir sem lágir mættu á svæðið og perluðu armbönd en hljómsveitin Ylja, Lalli töframaður og Prins Póló skemmtu líka viðstöddum.

„Þetta hefur verið virkilega viðburðarríkt og skemmtilegt ár sem við enduðum svo sannarlega með stæl. En nú eru afmælisarmböndin okkar komin í sölu á vefnum okkar www.kraftur.org en þau eru til í tveimur stærðum fyrir fullorðna og svo í barnastærð. Frábær jólagjöf fyrir alla sem gefur áfram“, segir Elín enn fremur.

Kraftur vill nota tækifærið og þakka öllum þeim sem komu fram á viðburðinum, sem lögðu hönd á perlu og þeim sem studdu félagið með einum eða öðrum hætti.

Hér má sjá skemmtilegar myndir frá viðburðinum sem ljósmyndarinn Freyja Gylfadóttir tók.