Skip to main content

Fuck Cancer Fjallahjólamót til styrktar Kraftsfélögum

By 21. júní 2019mars 25th, 2024Fréttir

Laugardaginn 8. júní var haldið Fuck Cancer Fjallahjólamót í Hlíðafjalli á Akureyri. Hópurinn Fuck Cancer – Því lífið er áskorun stóð fyrir viðburðinum og rann allur ágóði mótsins í Neyðarsjóð Krafts. Sjóðurinn styrkir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein sem lendir í fjárhagsörðugleikum vegna veikinda sinna.

Þetta var í annað sinn sem hópurinn stóð fyrir fjallahjólamóti en forsprakkar hópsins eru þær Edda Björk Gunnarsdóttir og Sara Ómarsdóttir sem báðar greindust með brjóstakrabbamein og kynntust í gegnum veikindi sín. Fuck Cancer tók fyrst þátt í WOW cycloton árið 2017 og þá með tvö lið sem voru einmitt dregin saman af Eddu og Söru. „Við hóuðum þá vini okkar sem höfðu fengið krabbamein, þekktu einhvern sem hafði greinst, vildu hafa gaman af lífinu og fagna lífinu saman og hópurinn hefur haldist og fleiri bæst við“, segir Sara. Í ár tóku um 100 manns þátt í Fuck Cancer Fjallahjólamótinu sem er í raun meira eins og samhjól þó hún kallist keppni. „Í ár hjóluðum við einnig til minningar um Eddu Björk sem féll frá á síðasta ári og söfnuðum um 400.000 krónum í Neyðarsjóðinn. Það er yndislegt að fá að heiðra minningu Eddu á þennan hátt“, segir Sara enn fremur.

Kraftur þakkar fyrir þetta frábæra framtak og öllum þeim sem komu og styrktu málefnið. Í lokinn viljum við enda þetta á orðunum hennar Eddu sem voru henni svo kær – Lífið er núna.

Hér má sjá myndir frá mótinu