Skip to main content

Fullkomin aðventustund með félagsmönnum Krafts

By 10. desember 2021desember 8th, 2023Fréttir

Fimmtudagskvöldið, 9. desember var Aðventukvöld Krafts haldið í netheimum. Sökum samkomutakmarkana brá Kraftur á það ráð að halda Jólastund í stofunni með Krafti annað árið í röð, þannig að Kraftsfélagar nær og fjær gætu átt notalega aðventustund heima í stofu. Jólastund í stofunni með Krafti var haldin í samstarfi við Fjarskemmtun sem hélt utan um útsendinguna í gegnum Vimeo.

Bingó, uppistand og jólastuð

Kraftsfélagar mættu fyrir framan skjáinn klukkan 19 og voru þeir hvattir til að hafa jólalega stemningu í stofunni hjá sér, skella sér í sparifötin eða kósýgallann og gæða sér á jólakræsingum á meðan á útsendingu stóð. Eva Ruza og Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts, sáu um bingóstjórn þar sem veglegir vinningar voru í boði. Bergur Ebbi kom og var með snilldar uppistand og jólasveinn mætti í útsendinguna og reyndi að hjálpa þeim Evu og Huldu við bingó-ið með misgóðum árangri. Að auki sendu Kraftsfélagar inn myndir af stemningunni hjá sér inn á Instagram með #heimakraftur og gátu unnið vinninga fyrir jólalegustu, flippuðustu eða kraftlegustu myndina.

Jólasveinar keyrðu vinninga heim til fólks

Yfir 300 manns skráðu sig til leiks um kvöldið og tóku virkan þátt í kvöldinu bæði í bingó-inu og Instagram leiknum. Þegar þátttakendur unnu, ruku jólasveinar frá höfuðstöðvum Krafts af stað með vinninga beint heim til vinningshafa þar sem tekið var einstaklega vel á móti þeim. Ef börn unnu eða voru á heimilum vinningshafa fengu þau aukalega bangsa eða aðra glaðninga. Vinningshafar sem að eru búsettir úti á landi munu fá vinningana sína senda heim á næstu dögum.
Jólastundin vakti mikla lukku og var augljóst að hún gladdi alla sem tóku þátt þó að ekki allir hafi fengið vinning og var ánægjulegt að „hittast“ og eiga þessa stund saman. Við þökkum öllum þeim sem komu á Jólastund í stofunni með Krafti sem og öllum þeim sem gerðu okkur kleift að gleðja félagsmenn okkar fyrir jólin.

Við þökkum ykkur

Við viljum þakka eftirtöldum fyrirtækjum og aðilum innilega fyrir stuðninginn og aðstoðina við að gera kvöldið svona einstakt og skemmtilegt.

Hér má sjá nokkrar myndir frá kvöldstundinni