Skip to main content

Gáfu kraft og innblástur

Fimmtudaginn, 21. október, hélt Kraftur Kröftuga kvennastund í Silfurbergi í Hörpu þar sem yfir 130 manns komu saman og fengu kraft og innblástur frá öðrum. Markmið kvennastundarinnar var að fá konur til að deila reynslu sinni, hvaðan þær sækja sinn styrk, hvernig þær hafa tekist á við áskoranir í lífinu og gefa öðrum innblástur og kraft.

Elín Skúladóttir, formaður Krafts, setti ráðstefnuna í fjarveru Frú Vigdísar Finnbogadóttur sem forfallaðist. Vigdís skilaði góðri kveðju til allra í salnum og hvatti fólk áfram með þeim orðum sem mágur hennar hafði sagt við hana þegar hún greindist með krabbamein „Life is tough but your are tougher.“

Lára Guðrún Jóhönnudóttir, hvunndagshetja Bleiku slaufunnar 2021, sagði frá sinni reynslu og hvernig hún stóð frammi fyrir því 18 ára gömul að missa móður sína úr krabbameini. Hvernig hún hefur tekist á við móðurmissinn og hvernig hún fann kraft til að takast á við brjóstakrabbameinið sem hún greindist svo sjálf með 20 árum síðar. G. Sigríður Ágústsdóttir, Sirrý Snjódrífa, deildi því hvernig það var fá þær fregnir að vera með ólæknandi krabbamein og hvernig hún fann lífskraftinn. Lífskraftinn sem fékk hana til að geta bara gengið 600 metra upp í það að fara upp í grunnbúðir Everest, þvera Vatnajökul í krafti kvenna og klífa hæsta tind Íslands, Hvannadalshnjúk með yfir 100 konum síðastliðið vor. Anna Dröfn Sigurjónsdóttir, sagði á einlægan og skemmtilegan máta frá því hvernig hún og fjölskylda hennar hafa nýtt húmorinn í að fleyta sér áfram í því erfiða ferli sem krabbameini fylgir. Anna hefur tvívegis greinst með brjóstakrabbamein en hún og maðurinn hennar hafa ætíð talað opinskátt um veikindin. Anna deilir reynslu sinni til að mynda á samfélagsmiðlum undir #látumdælunaganga. Hún segir það veita sér styrk að tala um hlutina og leyfa öllum og þar á meðal börnunum að vera með í ferlinu alveg frá upphafi og að jákvæðni beri mann hálfa leið.

Ragnheiður Guðmundsdóttir, skáld, las einnig upp úr ljóðabók sinni PTSD – ljóð með áfallastreitu sem hún gaf út nýverið. Hún hefur notað ljóðaskrif til að vinna sig út frá þeirri áfallastreitu sem hún upplifði eftir veikindi sín. Eliza Reid, forsetafrú og frumkvöðull, lokaði kvennastundinni og talaði um þær áskoranir sem hún hefur tekist á við í lífi sínu og starfi. Þar sagði hún að hugarfarið sé það mikilvægasta, að telja sér trú um að maður geti yfirstigið erfiða hluti skipti höfuðmáli. Þá greindi Eliza frá bók sinni Sprakkar sem fjallar um kvenskörunga Íslands en bókin kemur út á næstu dögum.
Hjónin, Ingileif Friðriksdóttir og María Rut Kristinsdóttir, baráttukonur hinsegin fólks, sáu um skelegga fundarstjórn og við lok kvennastundarinnar buðu þær konunum á trúnó og sófaspjall þar sem fólk gat komið með spurningar úr sal.

„Kvennastundin var í alla staði mjög vel heppnuð og hefði ekki verið hægt að setja á laggirnar nema fyrir velvild góðra fyrirtækja og einstaklinga. Þessi viðburður var algjörlega í anda Krafts þar sem við leggjum ríka áherslu á að veita fólki von og styrk á erfiðum tímum og að gefa fólki trú og raunsæja mynd af því að vera í þessum sporum. Þessar konur gerðu það svo sannarlega,“ sagði Hulda Hjálmarsdóttir framkvæmdastjóri Krafts eftir viðburðinn.

Kraftur þakkar þeim innilega fyrir sem og öllum þeim sem komu og voru með á kvennastundinni. Allir gestir fengu kveðjugjöf frá Krafti og Bioeffect og fengu þær sem deildu sinni reynslu og fundarstjórar einnig veglegan blómvönd frá Garðheimum.

Innilegar þakkir:

Hér má sjá  myndir af Kröftugu kvennastundinni

Myndirnar eru teknar af Birgi Ísleifi