Skip to main content

Gjafabréf fyrir listaverkum til styrktar Krafti

Stafræna listagallerí-ið Apollo Art selur nú jólagjafabréf fyrir listaverkum og rennur andvirði allra seldra gjafabréfa óskert til Krafts. Einn úr Apollo art teyminu lést nýverið úr krabbameini og ákvað eigandi Apollo art, Ellert Lárusson, að leggja Krafti lið og styrkja félagið með þessum hætti.

„Þetta málefni er okkur afar kært og viljum við þakka í verki fyrir magnað starf. Að því sögðu ætlum við að láta andvirði allra seldra gjafabréfa fram að jólum renna óskert til félagsins.“, segir Ellert.

Apollo art er fyrsta og stærsta stafræna listagallerí á íslandi og er það í samstarfi við yfir 130 þekkta og efnilega íslenska listamenn. Apollo art auðveldar leitina og brúar bilið á milli listamanna og listunnenda en þar er að finna þúsundir íslenskra listaverka svo sem málverk, vatnslitaverk og ljósmyndir. Hægt er að kaupa gjafabréfin inn á vefsíðu listagallerísins.

Við hvetjum fólk eindregið til að kaupa gjafabréfin. Falleg og einstök gjöf sem að gefur áfram.