Skip to main content

Nýverið safnaði Agla Björg Kristjánsdóttir áheitum til styrktar Krafti. Hún ákvað að snoða sig ef hún næði að safna 500.000 krónum fyrir félagið en hún náði markmiði sínu og gott betur en svo en alls söfnuðust 1.818.777 krónur.

Agla missti pabba sinn, Kristján Björn, úr krabbameini fyrir um fjórum árum síðan þá einungis 8 ára gömul. „Mig hafði lengi langað að snoða mig og nú ákvað ég bara að gera það. Mig langaði að safna pening fyrir Kraft, heiðra minningu pabba og gefa hárið líka til samtakanna Locks of love sem að munu búa til hárkollur fyrir börn sem að hafa misst hárið vegna veikinda. Kraftur hjálpaði pabba og okkur fjölskyldunni mikið á meðan að veikindum hans stóð. Félagið gaf pabba svo margt og mig langaði til að gefa til baka,“ segir Agla Björk. Agla náði heldur betur markmiðinu og vill nýta tækifærið og þakka öllum þeim sem lögðu söfnuninni lið. „Ég er svo óendanlega þakklát fyrir allan þennan stuðning. Ég bjóst aldrei við svona miklu,“ segir Agla en aðspurð segist hún fíla nýju klippinguna vel og henni líði eins og hún hafi alltaf verið með snoðaðan koll.