Skip to main content

Hjóla hringinn af Krafti 

Dagana 22. til 25. júní verður Síminn Cycloton haldið þar sem hjólað verður hringinn í kringum landið og í leiðinni safnað áheitum til styrktar Landsverndar. Team RECON ákváðu að gera gott um betur og hjóla til styrktar Krafti og vera með sína eigin áheitasöfnun.

„Við, vinirnir og samstarfsaðilar, ákváðum að skrá okkur til leiks og hjóla hringinn í kringum landið en langaði að safna fyrir Kraft og því góða starfi sem þar er unnið. Það eru nokkrir okkar búnir að taka þátt í Cycloton-inu áður en aðrir, þar á meðal ég, erum með minni reynslu. En við erum búnir að vera að æfa af „krafti“ síðustu mánuði og ég held að reynslan sé hægt og rólega að smitast yfir á okkur hina. Sama hvað, við stefnum aðallega á að gera þetta skemmtilegt,“ segir Aðalsteinn Haukur Sverrisson, forsprakki liðsins. Aðalsteinn segir enn fremur að þeir hafi fylgst með starfi Krafts og viti að þeim fjármunum sem munu safnast í þeirra áheitasöfnun verði vel varið.

Hægt verður að heita á Team RECON með því að leggja inn á bankareikninginn: 0370-13- 006736 kt. 531114-0430 eða á Karolina Fund. Við hvetjum  alla eindregið til að fylgjast með þessu skemmtilega og flotta liði.

Team RECON ætlar að leyfa okkur að fylgjast með á Instastory þegar þeir hjóla af Krafti núna í júní.

Team RECON, frá vinstri: Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Magnús Lárusson, Jón Árni Ólafsson, Sindri Bergmann, Birgir Árnason, Ingimar Guðmundsson, Árni Már Rúnarsson og Ágúst Ævar Gunnarsson