Skip to main content

Hjólar í óbyggðum Alaska til styrktar Krafti

By 25. febrúar 2020mars 25th, 2024Fréttir

Bergur Benediktsson er 37 ára ofurhugi sem er að fara taka þátt í keppni í Alaska þar sem hann mun hjóla 560 km utanvegar í óbyggðum og safna í leiðinni áheitum fyrir Kraft. Hann veit ekki hvort það munu taka 40 tíma eða meira en 10 daga að hjóla þessa leið en það fer allt eftir veðri og vindum.

Bergur mun hjóla þessa vegalengd á hjóli með extra breiðum dekkjum þar sem vegirnir þarna eru mjög erfiðir og mikið hefur snjóað þarna síðustu daga. Keppnin sem hann er að fara í heitir ITI 350 þar sem fólk getur valið um að hlaupa, hjóla eða fara á gönguskíðum mislangar vegalengdir en talað er um að þetta sé sannkölluð ofurmannakeppni. „Ég hef einu sinni áður hjólað svona langa vegalengd en þá var ég í Kansas og að sumri til í miklum hita og þá tók það um 30 tíma. Þetta er allt annað dæmi. Ég verð núna á breiðum dekkjum og á nöglum. Ég verð líka með þunnan svefnpoka með mér ef ég skyldi örmagnast og þurfa að leggja mig einhvers staðar á leiðinni,“ segir Bergur. Það eru líka sex bækistöðvar á leiðinni til að fá sér birgðir eða ná að leggja sig en lengsti leggurinn á milli bækistöðva er 150 km og fer það alveg eftir aðstæðum hvort keppendur muni ná á milli þeirra eða hvort þau þurfi að hvílast á milli einhvers staðar í óbyggðunum. Það eru oftast um 50-60 manns að taka þátt í svona keppni en þegar aðstæðurnar hafa verið verstar hafa e.t.v. bara tveir klárað og það á yfir 10 dögum.

Bergur vill nýta keppnina í að styrkja sig líkamlega og andlega en leggja í leiðinni góðu málefni lið. „Mér finnst Kraftur vera mjög þarft málefni. Ég hef þekkt fólk sem hefur greinst með krabbamein og veit að Kraftur er að gera góða hluti. Ég hvet því alla til að heita á mig á Karólínafund, hvetja mig þannig áfram og leggja þessu frábæra málefni lið í leiðinni,“ segir Bergur.

Starfsfólk og stjórn Krafts eru Bergi innilega þakklát fyrir og hlakka til að fylgjast með honum í þessu ofurhugaævintýri. Allir sem vilja heita á Berg, hvetja hann þannig áfram og styrkja Kraft í leiðinni geta gert það með því að smella á þennan hlekk