Skip to main content

Hlaupa í leðju til styrktar Krafti

Viktoría Jensdóttir, félagskona í Krafti, ásamt þremur öðrum ætlar að hlaupa í 15 km leðju- og þrautahlaupi þann 10. september næstkomandi í Chester á Bretlandi og safna áheitum fyrir Kraft í leiðinni. Hlaupafélagarnir hlaupa í minningu fjögurra ungra kvenna sem töpuðu sinni baráttu gegn krabbameini í sumar en þær voru allar á svipuðum tíma og Viktoría í krabbameinsmeðferð.

„Ég greindist með brjóstakrabbamein í desember 2020 og er rúmt ár núna síðan ég kláraði meðferðirnar mínar en ég fór í lyfjameðferð, geisla og skurðaðgerð. Ég kynntist Ingu, Gunnu, Evu og Vilborgu á þessu tímabili og var það mikið áfall að þær féllu allar frá með svona stuttu millibili nú í sumar. Maður kynnist fólki öðruvísi þegar maður er í krabbameinsmeðferð. Maður opnar sig einhvern veginn á annan hátt. Þótt við þekktumst bara í eitt til tvö ár þá ristir svona vinskapur miklu dýpra því maður er eitthvað svo hrár þegar maður kynnist,“ segir Viktoría.

Leðju-þrautahlaupið er í heild 15 km og um 30 þrautir sem geta verið allt frá drullu í ísbað, raflost og táragas. Þetta hlaup byggist upp á liðsheild og að liðin leysi þrautirnar saman en ásamt Viktoríu samanstendur liðið af manni hennar Stuart Maxwell og vinum þeirra hjóna Hafrúnu Hlín Magnúsdóttur og Jóni Geir Sigurbjörnssyni. Þetta er í annað sinn sem Viktoría og Stuart taka þátt í þessu hlaupi en í fyrsta sinn sem vinahjónin koma með.

Ögrandi hlaup en gefur til baka

„Þetta er klikkað skemmtilegt hlaup, maður er eins og krakki í því nema þetta eru svakalega ögrandi og erfiðar þrautir með rafmagnsstuði og ísbaði og alls konar. En nú er ég að fara í hlaupið eftir kórónuveirutímabilið og krabbameinsmeðferð. Ég hef ekki hlaupið svona langt eftir að ég lauk krabbameinsmeðferðinni og þetta verður alveg svakaleg áskorun þar sem líkaminn er ekki búinn að ná sér alveg. En ég ætla að njóta þess til fullnustu að geta tekið þátt í hlaupinu og safna í leiðinni áheitum fyrir Kraft. Þegar við vissum að við værum að fara í þetta hlaup þá langaði okkur að gefa til baka og láta gott af okkur leiða. Ég veit hreinlega ekki hvernig maður kemst í gegnum svona án þess að hafa stuðning eins og Kraft. Það er ótrúleg vinna sem þau eru að vinna ekki bara fyrir greinda einstaklinga heldur líka fyrir aðstandendur og því er svo ánægjulegt að geta hlaupið til stuðnings þeirra,“ segir Viktoría enn fremur.

Hægt er að heita á hlaupahópinn inn á Karolinafund en Viktoría vill taka það fram að þó það líti út eins og þau hafi náð markmiðinu þá er það ekki svo. „Málið er að ef maður setur markið of hátt og nær því ekki þá styrkir Karolinafund ekki málefnið og það þarf að endurgreiða öllum sem hafa heitið á. Þess vegna settum við markið mjög lágt því við viljum tryggja að Kraftur fái öll áheitin,“ segir hún að lokum.

Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að heita á Team Kraftur liðið en hægt er að fylgjast með þeim líka á Instagram.