Skip to main content

Hlaupið af Krafti í Reykjavíkurmaraþoninu

By 30. ágúst 2019mars 25th, 2024Fréttir

Yfir 350 hlauparar hlupu af Krafti í Reykjavíkurmaraþoninu þetta árið og söfnuðust alls fyrir Kraft 5.921.776 krónur inn á áheitavefnum www.hlaupastyrkur.is. Þetta er metþátttaka hlaupara fyrir Kraft sem og hæsta upphæð sem safnast hefur fyrir félagið inn á áheitavefnum.

„Við erum svo óendanlega þakklát öllum þeim sem hlupu fyrir okkur og þeim sem hétu á hlauparana okkar. Það er alveg hreint ómetanlegur stuðningur og svo dásamlegt að finna fyrir þeim meðbyr sem félagið okkar hefur í þjóðfélaginu,“ sagði Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts. Þetta árið var Kraftur með tvær hvatningarstöðvar á hlaupaleiðinni. Eina á Ægissíðu þar sem allir hlupu fram hjá hvort sem þeir voru að fara 10 km, 21 km eða 42 km. Hin var svo hjá Kirkjusandi þar sem hálfmaraþon og maraþon hlauparar fóru fram hjá. „Okkur fannst þau sem væru að fara lengri leiðir þyrftu að fá alveg auka hvatningu einhvers staðar á hlaupaleiðinni og skelltum því upp hvatningarstöð fyrir þau þar sem um 4 km voru eftir af hálfmaraþoninu. Það var gríðarleg stemning á báðum hvatnigarstöðvunum okkar og ég er viss um að allir hlaupararnir hafi fengið auka kraft frá okkur í hlaupin sín,“ sagði Hulda enn fremur.

Allir þeir sem hlupu fyrir Kraft fengu hlaupabol merktan Krafti að gjöf og var nokkuð ljóst á hlaupabrautinni að margir Kraftshlauparar voru þar á ferð. „Við reyndum að gefa öllum þeim sem voru í Kraftsbolum „fimmu“ en að sjálfsögðu skelltum við líka „fimmum“ á fullt af öðru fólki. Þetta var í alla staði alveg frábær dagur og stemningin einstök. Okkur er virkilega farið að hlakka til Reykjavíkurmaraþonsins 2020 og erum viss um að það verði jafnvel enn meira stuð þá,“ sagði Hulda að lokum.

Hér má sjá skemmtilegar myndir frá deginum