Skip to main content

Hulda lætur af störfum hjá Krafti

By 13. febrúar 2025Fréttir

Kæru Kraftsvinir og félagsfólk.

Dagurinn í dag markar tímamót í starfi félagsins en Hulda Hjálmarsdóttir hefur ákveðið að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Krafts. Hulda hefur verið mikilvægur hlekkur í starfsemi Krafts sem framkvæmdastjóri undanfarin 7 ár, sat í stjórn félagsins 2010 – 2017 og þar áður sem félagsmaður og sjálfboðaliði. Á þessum tíma hefur félagið vaxið og dafnað og ekki síst vegna þeirrar ástríðu sem hefur einkennt hennar störf fyrir Kraft.

„Ég kynntist Huldu á erfiðum tíma þegar ég greindist með krabbamein og frá fyrsta degi sem ég hafði samband við Kraft var hún ómetanlegur stuðningur og ég sá þar frá fyrstu hendi eldmóð hennar fyrir málstaðnum. Í gegnum störf sín hjá félaginu hefur hún sýnt einstakan kraft – rétt eins og nafn félagsins ber með sér. Sem framkvæmdastjóri hefur hún leitt mörg verkefni af mikilli fagmennsku og alúð og endar nú á þessari flottu vitundarvakningu. Kærar þakkir, elsku Hulda, fyrir ósérhlífið starf þitt á liðnum árum, þú hefur sannarlega skilið eftir þig varanleg spor í baráttu ungra krabbameinsgreindra.“ segir Viktoría Jensdóttir, formaður Krafts.

Við kveðjum Huldu með söknuði og vitum að það á við um allt félagsfólk Krafts sem hefur reynslu af hennar einstöku umhyggju og hlýja viðmóti. Við viljum þakka Huldu fyrir samfylgdina og óskum henni alls hins besta í þeim ævintýrum sem hennar bíða.

Við erum svo lánsöm að innan Krafts starfar mikið af góðu fólki og þeirra á meðal er Jens Bjarnason, félagsmaður, varamaður í stjórn Krafts og reyndur stjórnandi, sem hefur samþykkt að taka að sér tímabundin störf á skrifstofu Krafts. Hann mun leiða starf félagsins í samstarfi við okkar frábæra starfsfólk á meðan unnið er að ráðningu á nýjum framkvæmdastjóra.

Kveðja frá Huldu

„Á svona tímamótum veit maður ekki alveg hvar skal byrja. Kannski bara gott að byrja á því að segja TAKK! Eftir mörg afskaplega gefandi ár hjá Krafti finn ég að það er kominn tími á að upplifa nýjar áskoranir, því hef ég ákveðið að láta af störfum hjá félaginu.

Ungt fólk er okkar miklvægustu einstaklingar en ég þekki af eigin raun að greinast með krabbamein á mestu mótunarárum lífsins, þegar maður er raunverulega að hugsa um það hvað maður ætli að verða þegar maður verður stór, en jafnframt að skapa vinasambönd sem endast ævina á enda. Þá er einstaklega erfitt að vera kippt til hliðar og fá í hendurnar það krefjandi verkefni sem krabbamein getur verið. Þess vegna hefur það verið mitt hjartans mál að skapa öflugt félag sem getur veitt fólki sem fær slík verkefni í fangið og aðstandendum þeirra, stuðning og fræðslu í hæsta gæðaflokki, berjast fyrir bættri þjónustu í heilbrigðiskerfinu, auka jafningastuðning og sálfræðiþjónustu, styðja við lyfjakaup eða veita annan fjárhagslegan stuðning og almennt auka umræðu og fræðslu um krabbamein í samfélaginu með málþingum greinaskrifum blaðaútgáfum og vitundarvakningum.  Kraftur sinnir því mikilvæga hlutverki að minna fólk á að það er ekki eitt í baráttunni. Það er einlæg von mín að félagið geti sinnt því hlutverki um ókomna tíð.

Nú í lok ótrúlega flottrar vitundarvakningar þakka ég fyrir mig. Ég kveð Kraft þakklát, auðmjúk og stolt af því sem við höfum náð að afreka. Hlakka til að sjá Kraft halda áfram að vaxa og dafna. Kraftur litla félagið með stóra hjartað sem er kannski ekki lengur svo lítið… En svo sannarlega er það með stórt hjarta sem slær með félagsmönnum sínum á hverjum einasta degi. Takk fyrir mig!

LÍFIÐ ER NÚNA! 

Close Menu