Skip to main content

Hver deiling kostaði Davíð 100 krónur

By 6. mars 2020mars 25th, 2024Fréttir

Davíð Ólafsson söngvari og fasteignasali  er svo sannarlega með húmorinn og hjartað í lagi. Nýverið setti hann færslu á Facebook sem var staðfærð saga eða brandari sem gekk manna á milli. Hann ákvað því að styrkja Kraft um 100 krónur á hverja deilingu af brandaranum.

„Færslan fór bara á algjört flug og ég ákvað því að láta fólk borga fyrir góðan brandara eða ég í raun borga fyrir að fólk sé að hafa gaman af þessu,“ útskýrir Davíð hlæjandi. Færslunni hans var deilt 708 sinnum sem þýðir að hann safnaði 70.800 krónum fyrir Kraft sem hann vill láta renna í Neyðarsjóð Krafts sem styður við bakið á ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og hefur lent í fjárhagsörðugleikum vegna veikinda sinna. „Ég hef sjálfur greinst með ristilkrabbamein og er nú búinn að klára meðferð. Ég veit hvað Kraftur er að gera góða hluti og því vildi ég gefa til félagsins. Hvað er svo sem betra en að ná að fá fólk til að hlæja og njóta lífsins og um leið styrkja gott málefni,“ segir Davíð enn fremur.

Starfsfólk og stjórn Krafts eru Davíð innilega þakklát fyrir styrkinn sem mun vissulega koma sér að góðum notum í Neyðarsjóð Krafts.