Skip to main content

Hver króna skiptir máli

By 24. ágúst 2020ágúst 26th, 2020Fréttir

Við í Krafti erum að koma niður af appelsínugula hlaupaskýinu okkar eftir alveg ótrúlega magnaða daga sem enn halda áfram að gefa. Við erum óendanlega þakklát öllum þeim hlaupurum sem hlupu sína leið fyrir okkur sem og öllum þeim sem hétu á þá.

Þegar hætt var við Reykjavíkurmaraþonið vegna Covid19 skildum við það fullkomlega en vorum á sama tíma harmi slegin þar sem áheitasöfnunin sem kemur í gegnum það hefur verið ein af stóru fjáröflunum fyrir Kraft. Það að forsvarsmenn maraþonsins hafi hvatt hlaupara að hlaupa sína leið og halda áfram að safna áheitum er alveg hreint einstakt. Við erum mjög þakklát fyrir það sem og fyrir þá rúmlega 150 einstaklinga sem hlupu fyrir Kraft og söfnuðu áheitum sem gerir okkur kleift að styðja við bakið á ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum. Áheitasöfnunin er núna komin í rúmar 4,6 milljónir króna. Enn er hægt að heita á hlaupara inn á www.hlaupastyrkur.is en áheitasöfnuninni líkur á miðnætti 26. ágúst.

Hlaupadagur Krafts

Við í Krafti ákváðum að reima á okkur hlaupaskóna laugardaginn 22. ágúst og sýna hlaupurum okkar stuðning í verki og hvöttum Kraftshlaupara til að koma og njóta dagsins með okkur. Hægt var að hlaupa þrjár vegalengdir í Elliðaárdalnum: 600 metra, 10 km og 21 km. Um 35 Kraftshlauparar skráðu sig til leiks í Hlaupadag Krafts og hlupu með okkur í þvílíku sumarveðri og var stemningin dásamleg.

Fjöldi fólks hljóp einnig sína leið víðsvegar um höfuðborgarsvæðið og víðar og var einstaklega gaman að fylgjast með á samfélagsmiðlum þar sem fólk tengdi félagið með #krafturcancer og #éghleypafkrafti.

Takk öll fyrir að vera með okkur og njóta líðandi stundar og hlaupa til stuðnings ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum og takk þið öll sem hétuð á hlaupara. Það er út af fólki sem ykkur sem við getum verið til staðar. Með ykkar hjálp getum við hjálpað öðrum.

Hér má sjá ýmsar svipmyndir frá Hlaupadegi Krafts.

Myndir frá Hlaupadegi Krafts