Skip to main content

Indverskur Take-Away matur til styrktar Krafti

Fimmtudaginn, 30. september getur fólk gætt sér á sérstökum Take-Away seðli hjá Austur-Indíafélaginu og renna 2.000 krónur af hverri máltíð til Krafts. Um er að ræða alveg sér matseðil í tilefni af Góðgerðarkvöldi Nuru og þurfa pantanir að berast fyrir þriðjudaginn 28. september. Sjá neðar matseðilinn og hvernig þú pantar.

Nura A. Rashid greindist 36 ára með brjóstakrabbamein og í lok september á hverju ári hefur hún fagnað lífinu með vinum og vandamönnum og að hún hafi sigrast á krabbameininu. Í ár eru 10 ár síðan að hún greindist og ákvað hún að halda Góðgerðarkvöld Nuru á Austur-Indíafélaginu. Í boði verða sérvaldar kræsingar og kostar matseðillinn 10.000 krónur og renna 2.000 krónur af hverri pöntun til Krafts. „Þegar ég greindist vissi ég ekkert hvert ég átti að leita en ég var svo heppin að tvær konur sem unnu með mér höfðu reynslu og gátu hjálpað mér. Kraftur hjálpaði mér líka mikið og vil ég gefa til baka. Ég er í Stuðningsneti Krafts og hef hjálpað nokkrum konum sem eru af erlendu bergi brotnu og hafa greinst með krabbamein. Ég veit hvað starf Krafts skiptir miklu máli og því vil ég styrkja Kraft með þessu móti,“ segir Nura. Eigandi Austur-Indíafélagsins, Chandrika Gunnarsson, tók strax mjög vel í hugmynd Nuru en sjálf missti hún eiginmann sinn úr heilakrabbameini fyrir nokkrum árum síðan.  „Við verðum um 70 manns sem munum borða saman á Austur-Indíafélaginu og þetta verður svona elegant, klassískt og glam kvöld allt í bland með dásamlegum mat og fólki. En það er eiginlega uppselt á kvöldið en við ákváðum því að bjóða fólki líka upp á Take-Away til að allir geti notið og gefið af sér,“ segir Nura.

Matseðill Góðgerðarkvöld Nuru

Forréttur:

  • Hariyali lax eldaður í Tandoori ofni, marineraður í engifer, hvítlauk, myntu og kóríander.

Aðalréttir:

  • Gosht Chaap, lambafillet eldað í Tandoori ofni, marinerað í kúmíni, engifer, hvítlauk, kóríander og garam masala.
  • Shahi Korma, kjúklingalundir í rjómalagaðri sósu úr kasjúhnetum, tómötum og kardimommum.
  • Kadai Vegetables, blandað grænmeti í masala úr ristuðum kóríander, chili, fennlfræjum og kardimommum.

Meðlæti:

Hvítlauks naan brauð, Raitha jógúrtsósa með gúrkum og Basmati hrísgrjón

Eftirréttur

Kulfi, ís með pistasíum og saffran. Eftirlætisís Indverja

Einnig er hægt að fá vegan, glútenfría og grænmetisútgáfu en þú þarft að tilgreina það við pöntun.

Hvernig panta ég?

Það þarf að panta fyrir þriðjudaginn 28. september svo að nóg sé til af hráefni fyrir þennan flotta samsetta seðil. Þú sendir póst á austurindia@austurindia.is og lætur vita fyrir hversu marga þú vilt panta og að þetta sé vegna góðgerðarkvölds Nuru. Leggur svo inn á bankareikninginn 511-14-13004 kt. 210875-2129 fyrir matnum. Það þarf að sækja pöntunina 30. September á milli kl. 18:00 og 19:30. En samsettur matseðill fyrir einn kostar 10.000 krónur og af því renna 2.000 krónur til Krafts en Nura mun afhenda styrkinn eftir kvöldið. Panta

Verði ykkur að góðu!