Skip to main content

Ísfélag Vestmannaeyja gaf Krafti veglegan afmælisstyrk

Í tilefni af 120 ára afmæli Ísfélags Vestmannaeyja afhenti Guðbjörg Matthíasdóttir, eigandi Ísfélagsins, Krafti nýverið veglegan afmælisstyrk. Styrkurinn var afhentur á afmæli Ísfélagsins þann 1. desember en Ísfélagið er elsta starfandi hlutafélag landsins.

Haldið var lítið kaffiboð í sal Akóges í Vestmannaeyjum þar sem stjórn félagsins tók á móti styrkhöfum. Afhentir voru þó nokkrir styrkir til góðgerðarfélaga og félagasamtaka sem eiga það sameiginlegt að starfa á sviði björgunarmála, líknarmála og í barna- og unglingastarfi. Ísfélagið veitt Krafti styrk upp á heilar fimm milljónir króna.

Kristín Gunnarsdóttir, félagskona í Krafti tók á móti styrknum fyrir hönd Krafts en styrkurinn hljóðaði upp á hvorki meira né minna en fimm milljónir króna. „Ég missti son minn, Gunnar Karl, úr krabbameini í febrúar en félagið reyndist honum vel og hann nýtti sér t.a.m. sálfræðiþjónustu Krafts meðan hann var á lífi. Félagið hefur einnig reynst okkur fjölskyldunni mjög vel og fengum við t.a.m. útfararstyrk eftir andlát hans sem kom sér vel. Því var mikill heiður að fá að taka á móti styrknum fyrir hönd félagsins,“ sagði Kristín eftir afhendingu styrksins.

„Félagið hefur staðið mér nærri undanfarin ár en ég missti manninn úr krabbameini þegar hann var einungis 49 ára. Það er svo sannarlega mikil þörf á félögum eins og Krafti og því tel ég mikilvægt að styrkja félagið,“ sagði Guðbjörg, eigandi Ísfélagsins eftir afhendingu styrksins.

Stjórn og starfsfólk Krafts þakkar Ísfélaginu innilega fyrir þennan veglega styrk sem mun vissulega koma að góðum notum við að þjónusta félagsmenn enn frekar.