Skip to main content

Konur eru konum bestar styrkja Kraft

Á myndinni sést Hulda Hjálmarsdóttir taka við styrknum frá stelpunum í Konur eru konum bestar.  Frá vinstri: Elísabet Gunnars, Andrea Magnúsdóttir, Rakel Tómasdóttir, Hulda Hjálmarsdóttir, Nanna Kristín Tryggvadóttir og Aldís Pálsdóttir.

Það má með sanni segja að jólin hafi komið snemma hjá Krafti í ár þar sem stelpurnar í Konur eru konum bestar komu nýverið og afhentu Krafti veglegan styrk. En í september seldu stelpurnar sérstaka boli og taupoka til stuðnings Krafti. Varningurinn var til sölu í versluninni Andreu í Hafnarfirði og á vefversluninni https://konurerukonumbestar.com/ og var vörunum einstaklega vel tekið. Á frumsýningardegi vörunnar myndaðist röð í kringum verslunina hjá Andreu af konum sem vildu tryggja sér bol eða tösku en allur ágóði rann til Krafts. Með verkefninu er verið að hvetja konur til að styðja við bakið á hver annarri.

Þetta er í þriðja sinn sem stelpurnar í Konur eru konum bestar standa fyrir átaki sem þessu og hafa þær valið sér mismunandi góðgerðarmál til að styrkja með sölu á varningi. Að þessu sinni ákváðu þær að styrkja ungt fólk og aðstandendur þeirra í baráttunni gegn krabbameini. „Okkur fannst tilvalið að velja Kraft í ár. Kraftur hefur verið sérstaklega áberandi undanfarna mánuði og fannst okkur ekkert annað koma til greina en að styrkja ungt fólk með krabbamein. Ég þekkti líka persónulega tvö ungmenni sem létust á árinu, Bjarka og Fanney. Þau og makar þeirra hafa leitað til Krafts og ég veit hversu vel Kraftur styður við bakið bæði á þeim sem eru greindir og aðstandendum,“ sagði Elísabet Gunnars hjá Trendnet en hún er ein af forsprökkum Konur eru konum bestar. Ásamt henni eru það fatahönnuðurinn Andrea Magnúsdóttir, ljósmyndarinn Aldís Pálsdóttir, grafíski hönnuðurinn Rakel Tómasdóttir og rekstrarverkfræðingurinn Nanna Kristín Tryggvadóttir.

Nýverið komu stelpurnar í Kraft og afhentu Huldu Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Krafts styrkinn sem safnaðist í átakinu þeirra. Það voru 3,7 milljónir króna sem söfnuðust fyrir félagið en það er hæsta upphæðin sem hefur safnast í átakinu hingað til. „Við erum svo ótrúlega þakklát. Félagið væri ekki til nema fyrir velvild einstaklinga og fyrirtækja sem að gefa af sér. Við munum svo sannarlega geta nýtt þessa fjármuni í starf okkar í þágu ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda,“ sagði Hulda við afhendingu styrksins.

Kraftur vill nota tækifærið og þakka stelpunum í Konum eru konum bestar innilega fyrir stuðninginn og öllum þeim sem að studdu verkefnið með kaupum á bol og/eða taupoka.

Á myndinni sést Hulda Hjálmarsdóttir taka við styrknum frá stelpunum í Konur eru konum bestar.  Frá vinstri: Elísabet Gunnars, Andrea Magnúsdóttir, Rakel Tómasdóttir, Hulda Hjálmarsdóttir, Nanna Kristín Tryggvadóttir og Aldís Pálsdóttir.

Leave a Reply