
Árlega Kraftsblaðið okkar er komið út og er tilvalin lesning í sumarfríinu 🧡
Um er að ræða veglegt blað, stútfullt af áhugaverðum viðtölum og fræðandi efni sem veitir fólki innsýn inn í þær áskoranir sem fylgja því að greinast ungur með krabbamein eða vera aðstandandi. Má þar nefna viðtal við Guðrúnu Blöndal, sem segir frá sinni reynslu af því að greinast ung með Hodgkins eitilfrumukrabbamein og hvernig niðurstöður úr jáeindaskanna urðu henni tvöföld gleðitíðindi. Bolli Bjarnason, sonur séra Jónu Hrannar Bolladóttur, deilir með okkur sinni upplifun af Kröftugri strákastund og segir í einlægu viðtali frá hvernig hann tekst nú á við veikindi móður sinnar. Hver er munurinn á Krafti og Ljósinu? Hvers vegna er þörf fyrir heimaspítala? Framtíð Stuðningsnetsins og hollráð fyrir aðstandendur.
Þetta og margt fleira sem snýr að starfsemi Krafts er að finna í þessu veglega blaði sem við hvetjum ykkur til að glugga í!
Blaðinu verður dreift á þó nokkrar N1 stöðvar um land allt á næstu dögum og getur fólk gripið með sér eintak þar, auk þess sem ýmsar heilbrigðisstofnanir landsins fá blaðið til sín. Félagsmenn Krafts geta óskað eftir að fá blaðið sent til sín með því að senda okkur tölvupóst á kraftur@kraftur.org, en rafræna útgáfu af blaðinu má finna hér.
Blaðið er styrkt af góðum fyrirtækjum með auglýsingum og styrkarlínum en án þeirra gætum við ekki gefið út blað sem þetta. Við sendum þeim og öllum viðmælendum bestu þakkir.
Eftirfarandi sáu um blaðið í ár:
- Ritstjóri og ábyrgð: Katrín Petersen
- Ritstjórn: Aðalheiður Dögg Finnsdóttir, Rakel María Eggertsdóttir og Sólveig Ása Tryggvadóttir
- Umbrot: Hrefna Lind Einarsdóttir
- Forsíðuljósmynd: Laimonas Dom Baranauskas, Sunday & White Studio
- Prófarkalestur: Guðlaug Birna Guðjónsdóttir
- Prentun: Prentmet Oddi ehf.