Skip to main content

Kraftshlaup á Þorbjörn

Þann 27. mars næstkomandi ætla Börkur Þórðarson og Guðný Petrína Þórðardóttir að hlaupa tíu ferðir upp og niður Þorbjarnarfell til styrktar Krafti. Með þessu hlaupi vilja þau vekja athygli á Krafti og um leið safna fjármagni til stuðnings félaginu.

„Við vitum bæði að starf Krafts er mjög þarft. Það er mikilvægt að það sé fyrir hendi sterkt stuðningsnet sem grípur ungt fólk og fjölskyldur þeirra þegar fótunum er kippt undan þeim við þessi veikindi. Þetta stendur okkur öllum nærri en skýrt dæmi úr minni fjölskyldu er til að mynda að föðurafi minn dó ungur úr krabbameini frá föðurömmu minni og fjórum drengjum, þ.á.m. föður mínum,“ segir Guðný Petrína.

Guðný og Börkur njóta þess mikið að hreyfa sig og vera úti í náttúrunni. Allir eru velkomnir að hlaupa eða ganga með þeim hvort sem er í lengri eða skemmri tíma á meðan á hlaupinu stendur og njóta útiverunnar með þeim. Í heild munu þau hlaupa um 30 km með 2100 m hækkun og hefja þau hlaupin klukkan 9 þann 27. mars og áætla má að þau verði um sex tíma að hlaupa þessar tíu ferðir. „Við erum að sjálfsögðu á skjálftavaktinni og ef eitthvað breytist þá þurfum við að breyta kannski dagsetningum eða fjalli en við höldum samt núna ótrauð áfram og stefnum á Þorbjörn,“ segir Guðný enn fremur. Hægt er að fylgjast með viðburðinum og setja sig á mætingarlistann á Facebookviðburðihlaupsins . En styrktarframlög greiðast inn á reikning: 515 – 14 – 611766, kt. 210778-4979. Margt smátt gerir eitt stórt

Við hvetjum líka alla til að mæta og njóta náttúrunnar af Krafti.