Skip to main content

Kvenfélagskonur í Kópavogi færðu Krafti styrk

By 24. október 2019mars 25th, 2024Fréttir
Kvenfélag Kópavogs styrkir Kraft

Miðvikudaginn 16. október s.l. barst Krafti óvænt og kærkomin gjöf frá Kvenfélagi Kópavogs sem færði félaginu 2 milljónir króna. Ákveðið hafði verið að leggja niður félagið og um leið var samþykkt að eftirstandandi fjármunir kvenfélagsins myndu renna til góðgerðarmála. Ákvað stjórnin að Kraftur myndi m.a. njóta góðs af. Kvenfélag Kópavogs hefur starfað frá árinu 1950 og styrkt margs konar starfsemi í heimabæ sínum. Þar má m.a. nefna stuðning við Kópavogskirkju en þess má geta að félagið stóð straum af kostnaði við glugga Gerðar Helgdóttur á vesturhlið kirkjunnar. Kvenfélagið vann einnig að undirbúningi byggingar Félagsheimilis Kópavogs og lagði fjármuni í bygginguna. Þá hefur kvenfélagið komið að fjölmörgum verkefnum í þágu Kópavogsbæjar, svo sem Kópavogskirkju, Sunnuhlíð og Arnarskóla, sem er skóli fyrir einhverfa. Að sögn Sigrúnar Eliseusdóttur, formanns félagsins, er styrkurinn veittur í nafni þeirra fjölmörgu kvennfélagskvenna sem lagt hafa að mörkum óeigingjarnt starf í þágu Kvenfélags Kópavogs.

Kraftur þakkar af alhug þann hlýhug og velvild sem felst í þessum rausnarlega styrk og óskar kvenfélagskonum í Kópavogi, fyrr og nú, gæfu og farsældar.

Á myndinni eru frá vinstri: Helga Skúladóttir, Hjördís Smith, Sigrún Eliseusdóttir, Hulda Hjálmarsdóttir, Hildigunnur Þórðardóttir og Rannveig Garðarsdóttir