Skip to main content

Ljósmyndir til styrktar Krafti

Nýverið afhenti ljósmyndarinn Berglind Þráinsdóttir Krafti styrk upp á 610.000 krónur en Berglind hélt sölusýningu á fallegum macro-ljósmyndum til styrktar Krafti fyrir jólin þar sem öll upphæðin rann óskert til Krafts. Berglind ætlar að halda styrktarsölunni áfram fyrir þau sem hafa áhuga á að kaupa sér fallega náttúruljósmynd og styrkja gott málefni í leiðinni.

Berglind hefur nú selt á annan tug mynda til styrktar Krafti en hver mynd er sameinuð úr allt að 200 eins ljósmyndum sem eru teknar á sérstaka nálægðarlinsu. Myndirnar eru líkt og abstract listaverk af agnarsmáum mynstrum í náttúrunni sem við náum aldrei að sjá með berum augum á þennan hátt.

Hver mynd kemur í einu eintaki í ramma annars vegar og svo öðru eintaki á álplötu. Myndirnar voru rammaðar inn af fyrirtæki í London sem handsmíðar gegnheila viðarramma og notar eingöngu náttúruleg FSC vottuð efni í alla sína framleiðslu. En FSC er sjálfbær skógrækt þar sem ekki eru felld fleiri tré en skógurinn nær að endurnýja. Jafnframt tryggir FSC vottun að dýra- og plöntulíf er verndað.

Berglind tekur enn á móti áhugasömum og rennur öll upphæð af sölu myndanna til Krafts. Álmyndirnar eru í A4 stærð og kosta 20.000 krónur en myndirnar í ramma eru einnig í A4 stærð en ramminn er 34×44 cm og eru þær seldar á 30.000 kr. með rammanum.

Stjórn og starfsfólk Krafts þakka Berglindi innilega fyrir stuðninginn og hvetja alla áhugasama að senda Berglindi tölvupóst á berglindthrainsphoto@gmail.com eða hringja í síma 895-9599 til að fá nánari upplýsingar eða bóka tíma hjá henni til að skoða myndirnar. Við vekjum einnig athygli á Instagram síðu Berglindar.

Á myndinni má sjá Huldu Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Krafts taka á móti styrknum og einni af macro-ljósmyndunum af Berglindi Þráinsdóttur, ljósmyndara.