Skip to main content

Lyftu þér upp með skemmtilegustu plötusnúðum landsins og Krafti

Kraftur er kominn með sína eigin rás á Spotify þar sem heitustu plötusnúðar landsins deila lagalistum með hlustendum. Sóley Kristjánsdóttir eða DJ Sóley sem er félagsmaður í Krafti kom með þessa snilldar hugmynd og hefur verið í samstarfi við plötusnúðana. Við tókum stutt spjall við hana.

„Mér datt þetta bara í hug því margir eru alltaf að hlusta á það sama og maður hefur stundum lítið hugmyndaflug. Ég ákvað að tala við nokkra góða plötusnúða um að deila tónlist með félagsmönnum okkar og öðrum því það er til svo mikið af góðri tónlist en stundum veit fólk bara ekki af henni. Tónlist er svo mögnuð. Hún getur algjörlega bjargað deginum, hún lyftir andanum og getur breytt rigningu í sól sem við þurfum svo sannarlega á að halda,“ segir DJ Sóley.

Spotify rás Krafts – Kraftur_cancer – er núþegar með fjóra lagalista frá DJ Sóley, Dóru Júlíu og MamaGunz. Senn mun fjölga listum en þeir verða með mismunandi þemu og tónlist, allt eftir stíl plötusnúðsins. „Ég hafði bara samband við nokkra plötusnúða fyrst um sinn. Ég vissi að Mama Gunz ætti magnaðan suðrænan lista með kúbverskri og suðrænni tónlist. Dóra Júlía er náttúrulega algjör stuðpinni og hún er með tvo lista Groove og Diskó stuð. Svo er að koma listar frá DJ Margeir, annar út í hugleiðslutónlist og hinn með meira raftónlist. Gullfoss og geysir eru líka að fara senda lista en þeir eru svakaleg hittaramaskína,“ segir Sóley. Hún er sjálf að fara skella inn sígildum klassískum lista sem hún segir að sé einstaklega notalegur og fullkominn ef þú ert að fara slaka á í baði. Listinn Púðursykur með DJ Sóley og Krafti er kominn inn á rásina en hann er svona hip-hop/RB listi. „Ég lét fyrsta listann heita Púðursykur því ég var með hip-hop og RB tónlistarþátt á X-inu árið 1997 og byrjaði í raun þá ferilinn minn sem plötusnúður svo mér fannst snilld að kalla hann því nafni,“ bætir Sóley skellihlæjandi við í lokinn.

Sóley á von á að fleiri listar og plötusnúðar munu bætast inn á Spotifyrás Krafts í framtíðinni. Það sem er komið sé góður grunnur fyrir fólk svo það fái ekki leið á að vera hlusta á sömu tónlistina alla daga. Það muni pottþétt koma meira inn síðar svo nú er bara um að gera að stilla á rásina og fylgjast reglulega með.